135. löggjafarþing — 42. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[01:50]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þessi ótti hv. þingmanns við eitthvað sem hann kallar valdastofnanir hér í Reykjavík er með ólíkindum. Mér finnst alveg ótrúlegur hroki hv. landsbyggðarþingmannsins að tala svona um sameiginlegar stofnanir okkar, þjóðarinnar, stofnanir sem hafa borið uppi menningararfinn, þ.e. tryggt það að hann verði áfram til og varðveitt það sem hægt hefur verið að varðveita, varðveitt það sem stofnanirnar hafa fengið fjármagn til. Og ég spyr hv. þingmann: Er húsasafn Þjóðminjasafnsins allt hér á höfuðborgarsvæðinu? Nei, það er bara alls ekki hér á höfuðborgarsvæðinu að undanskilinni Nesstofu úti á Seltjarnarnesi.

Húsasafn Þjóðminjasafnsins er úti um allt land og ég frábið mér þennan málflutning. Ég og minn flokkur berum landsbyggðina mjög fyrir brjósti. Það gera líka menningarstofnanir sem eru staðsettar á Reykjavíkursvæðinu. Ég nefni Þjóðminjasafnið, ég nefni Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnun. Þetta er óþarfaótti í hv. þingmanni við eitthvert stofnanavald, einhvern ímyndaðan stofnanahroka sem hann talaði um hér á Reykjavíkursvæðinu.

Ég segi: Við höfum búið til lög um fornleifasjóð, um safnasjóð, um alls kyns tónlistarsjóði, bókmenntasjóð og launasjóði og hina og þessa þar sem við höfum stýrt málum inn í faglegan farveg, þar sem jafningjamat fer fram á verkefnunum. Það er þannig sem við eigum að stýra langstærstum hlutanum af þessum fjárveitingum okkar.

Þegar hv. þingmaður talar um lítil verkefni verð ég að fá að minna hann á það að þegar þessi litlu verkefni eru lögð saman eru þau rúmur milljarður króna. Mér finnst það ekki lítil verkefni. Við erum að tala um 70 millj. kr. í húsasafnið en 1 milljarður fer í verkefni sem hv. þingmaður hefur úthlutað með félögum sínum í fjárlaganefnd.