135. löggjafarþing — 42. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[02:18]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarni Harðarson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Ekki dettur mér í hug að ríkisstjórnin klofni vegna listamannalauna. En því tók ég þetta dæmi að sú hörmulega staða er á stjórnarheimilinu núna að ríkisstjórnarflokkarnir koma sér ekki saman um hagstjórnina. Þeir koma sér ekki saman um Stjórnarráðið eins og við höfum heyrt af umræðum um bandorminn hér á Alþingi. Þeir koma sér varla saman um kristindóminn og þeir geta ekki komið sér saman um listina. Ég hef ekki fundið annað lím í þessu samstarfi en valdhræðslu og hinn gilda sjóð ríkisins sem fráfarandi stjórn skildi eftir handa þeim. Það er títt í slæmum hjónaböndum að á meðan nógu er hægt að eyða getur það lafað en um leið og harðnar á dalnum verður ástandið erfiðara.

Varðandi ósamræmi í málflutningi mínum og hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar fann ég það nú ekki í þeim aðfinnslum sem hv. þm. Kristján Þór Júlíusson hafði uppi. Þegar hv. þm. Birkir Jón Jónsson vísaði til kosninga eftir eitt ár hafði hann í huga það sama og ég hef verið að ræða um, þ.e. að mikið ósamkomulag væri á stjórnarheimilinu og þess vegna væri eins víst að stjórnin spryngi — margir hafa þá talið að við stjórnarslit þyrfti að kjósa aftur, þó að það ætti svo sem ekki endilega að þurfa að vera. Ég talaði hér áðan út frá þeim almennu reglum sem gilda um lengd kjörtímabila og gerði svo sem enga sérstaka umræðu um það enda lítill spámaður og allir sjá að brugðið getur til beggja vona með líftíma ríkisstjórnarinnar.

Ég skildi þau ummæli sem féllu um hægri flokkinn á þá leið að (Forseti hringir.) þau sneru að því að við vildum spara í fjárlögum og þess vegna værum við hægri menn.