135. löggjafarþing — 42. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[02:22]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarni Harðarson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Heldur þóttu mér þetta rýr svör um hið meinta samkomulag stjórnarflokkanna en aðeins var þó vikið að stjórnarsáttmála sem ég kannast ekki við að vera mjög lesinn í en hef vissulega rennt yfir eins og aðrir hv. þingmenn. Ég veit ekki betur en að í honum sé talað um ábyrga og góða efnahagsstjórn og það var það sama og Sjálfstæðisflokkur lofaði kjósendum sínum fyrir kosningar, það var það sama og Samfylkingin gaf út í sínu rauða kveri, því að þeir vilja nú stundum hafa rauða litinn með.

En það er ekki það sem er farið eftir, það er ekki það sem samkomulag hefur náðst um í fjárlagagerðinni og það er mjög alvarlegur hlutur. Við höfum nú nýjast orð hæstv. utanríkisráðherra og formanns Samfylkingarinnar um að helsta framlag ríkisstjórnarinnar við komandi kjarasamninga verði að koma böndum á efnahagslífið. Ekki er að sjá að það standi til, vegna sundurlyndisins eru engar líkur á að það takist.

Það að ég hafi birt hér spádóma, í eina tíð voru menn nú brenndir fyrir að gera slíkt. (KÞJ: Það er löngu liðin tíð.) Vegna frammíkalls vil ég geta þess að ég er það forn í háttum að ég legg ekki fyrir mig spádóma af þeim varnaðarorðum sem gefin voru við slíku á 17. öld og hef engu um það spáð hvað ríkisstjórnin muni lifa lengi. Ég hef aðeins talað um það hvað hin almenna regla gerir ráð fyrir að kjörtímabil sé langt. Ég óska landsstjórninni alls góðs og vonast til að betur takist til við næstu fjárlagagerð, að þá leggi menn fram ábyrg fjárlög en ekki plagg eins og það sem við nú eigum við og mun reynast okkur mjög erfitt þegar kemur að kjarasamningum á komandi vetri.