135. löggjafarþing — 42. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[02:44]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get að sjálfsögðu ekki svarað því frekar en aðrir, það veit enginn hvert stefnir á fjármálamörkuðum, þetta er ekkert bundið við íslenskan fjármálamarkað. Það hefur orðið lækkun á bréfum á alþjóðlegum markaði í löndunum í kringum okkur. Við þekkjum það ekki og vitum ekki hvert framhaldið verður. Ég geri ráð fyrir að með svipuðum hætti yrði brugðist við og í öðrum ríkjum. Við skulum ekki gleyma því að við erum með lægsta fjármagnstekjuskatt sem nánast þekkist á byggðu bóli.

Aðeins aftur að sjúkrastofnununum sem við erum að ræða. Á milli 70 og 80% af rekstrarkostnaði sjúkrahúsanna eru laun. Þegar menn segja, og hv. formaður heilbrigðisnefndar hefur einnig sagt það, að það þurfi bara að bæta stjórnunina eða vinnulagið, rekstrarformið — þá væntanlega með einkavæðingu, eða hvað? — verða menn að gera grein fyrir því hvað þeir meina nákvæmlega. Við verðum að taka alvarlega þá aðila sem hafa frá 1999 ár eftir ár sýnt fram á aukna framleiðni þegar þeir núna vara okkur við því að ganga lengra, neyðarástand geti blasað við, að þeir geti ekki sinnt þeirri þjónustu óbreyttri sem þeir gera nú. Við verðum náttúrlega að taka þá alvarlega nema við getum sýnt fram á að vinnuaðferðir þeirra dugi ekki, en þá verðum við líka að gera það.

Ég minnist þess að sjá skýrslu frá OECD þar sem því var haldið fram að Íslendingar nýttu hverja krónu í heilbrigðiskerfinu betur en flestar aðrar þjóðir. Við erum með gott heilbrigðiskerfi og við þurfum að fara varlega í því að grafa undan því sem ég tel að við séum (Forseti hringir.) að gera með þessum fjárlögum.