135. löggjafarþing — 42. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[02:50]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarni Harðarson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Þó að ræða hv. þm. Illuga Gunnarssonar hafi ekki verið löng var hún um margt mjög góð og ég gladdist við að heyra hana. Ég held reyndar að í ræðum fari ekki alltaf saman magn og gæði.

Ég sé þó örla á þeim skilningi sem ég hef oft kallað eftir úr þessum ræðustól í öllum fjárlagaumræðunum þremur, að einhver skilningur sé á því að við teflum á tæpasta vað í aukningu ríkisútgjalda. Betur væri ef sá skilningur væri almennari því að ég tel að sú mikla aukning á ríkisútgjöldum verði heimilunum í landinu mjög dýr og að við séum í raun og veru að stefna að óðaverðbólgu með því sem hér er gert.

Vegna þess að vikið var sérstaklega að hækkuninni milli 2. og 3. umr. — og ég saknaði þess svolítið í andsvörum áðan við hv. þm. Kristján Þór Júlíusson að hann vék ekki að KADECO-málum sem þó voru aðalumfjöllunarefni mín í ræðunni. Ég taldi mig ekki hafa leyfi til að fara í andsvör við hann í mínum svörum þar sem þá var ég til svara.

Mig langar því, herra forseti, að kalla eftir svörum hv. þm. Illuga Gunnarssonar við því hvort hann sé alls kostar sáttur við það stjórnlag sem við er haft varðandi málefni KADECO og hvort honum þyki það rétt röðun mála? Hefði ekki verið eðlilegra að byrja á réttum enda og breyta þeim samningum sem eru til grundvallar málinu og miðuðu aldrei við að það væri tekið inn á fjárlög? Telur hann fjárlaganefnd hafa það dómsvald sem (Forseti hringir.) hún hefur tekið sér í málinu?