135. löggjafarþing — 42. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[02:52]
Hlusta

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Komið hefur fram í ræðum okkar beggja, mínum og hv. þm. Bjarna Harðarsonar, að við höfum áhyggjur af útgjaldastiginu. Það fór þó svo að ekki bættust við heiðurslaun til listamanna sem þó sparar eilítið. (Gripið fram í.) Sú hækkun, hv. þingmaður, helgast af því að framlagið hefur lengi staðið í stað og því hafði orðið raunlækkun til nokkurs tíma. Ákveðið var að reyna að bæta úr því gagnvart þeim listamönnum sem nú eru á launum.

Sú hækkun hefði komið til hvort eð er og þá hefði augljóslega farið þannig, að mínu mati, að fleiri listamönnum hefði verið bætt við á þann lista. Það hefði þá valdið enn meiri hækkun. Ég deili þeirri skoðun með hv. þingmanni að margir íslenskir listamenn eru mjög vel að því komnir að bætast á þennan lista. Ég er sannfærður um að fjöldi mun bætast á listann á næstu árum. Við getum þó fagnað því að það jókst ekki að þessu sinni.

Reyndar er það svo að ég hef saknað þess nokkuð í umræðum um fjárlögin að þessu sinni að þeir sem haft hafa svipaðar áhyggjur og við hv. þingmaður höfum haft, hafa ekki komið fram með greinargóðar tillögur um niðurskurð um þau atriði sem hefði mátt sleppa.

Það er auðvelt að gagnrýna útgjaldastigið en erfiðara að benda á tiltekin dæmi þar sem menn vilja skera niður. Ég get svo sem haft alla samúð með stjórnarandstöðunni um að kannski er nóg í því tilviki að kalla eftir því. Það er okkar í stjórnarliðinu að tryggja að ekki sé of langt gengið. Ég treysti mér til að styðja fjárlögin af því ég tel að þau séu innan þessa ramma en fullyrði enn á ný að þau eru komin út að ystu mörkum.