135. löggjafarþing — 42. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[02:54]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarni Harðarson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég vék að listamannalaununum hér fyrr og mér þykir vænt um að fá þá umræðu en ég ítreka að þar tókst svo slysalega til að bæði var listamönnum fækkað og útgjöld aukin. Ég tel að ekki hafi brýn nauðsyn borið til þess að svo óhönduglega tókst til.

Varðandi ríkisútgjöldin hef ég margoft bent á hvar ég telji að skera megi niður. Ég vil bæta við annarri spurningu þótt ósvarað sé spurningunni um KADECO. Hv. þm. Illugi Gunnarsson mun hafa hér tvær mínútur og getur þá notað eina á hvora spurningu.

Ég veit að hv. þm. er, líkt og ég, áhugamaður um viðgang og eflingu landsbyggðarinnar en ég hef engu að síður talið að þær vegaframkvæmdir sem lagðar eru til í fjárlagafrumvarpinu séu allsendis óraunhæfar. Reyndar hefur örlað á þeirri skoðun hjá sumum stjórnarliðum líka.

Ég kalla eftir því hvers vegna meiri hluti fjárlaganefndar sýndi ekki þann manndóm að taka á þessu og koma þeirri tölu og þeim framkvæmdum niður á eitthvað sem raunhæft er þannig að einungis væru lagðar til þær upphæðir sem hægt væri að eyða. Það mun vera fordæmi að ekki einungis sé lofað öllum þeim peningum sem hægt er að eyða á næsta ári, eins og ég tók fram hér fyrr, heldur líka peningum sem ekki verður hægt að eyða.