135. löggjafarþing — 42. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[02:56]
Hlusta

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú skal það játað að ég er lítill sérfræðingur í því hvar best er að leggja vegi og hvar best sé að koma þeim fjármunum í lóg. Ég veit þó að víða er pottur brotinn og að mörg verkefni bíða. Um það getum við verið sammála, ég og hv. þingmaður. Kannski er einhver drýgsta byggðaaðgerðin sem hægt er grípa til, að tryggja góðar samgöngur. Rannsóknir sýna að það er sennilega sá þáttur sem mest hefur að segja þegar kemur að því að stýra fólksflutningum frá landsbyggðinni til höfuðborgarinnar, einkum og sér í lagi á þeim svæðum sem lengi hafa búið við slæmar samgöngur.

Ég þekki ágætlega til á Vestfjörðum þar sem menn bjuggu svo lengi við afar erfiðar aðstæður og ég er sannfærður um að samgöngur hafa, ekki síður en niðurskurður í afla, haft mikið að segja um hvernig þar hefur gengið.

Ég treysti síðan forsvarsmönnum Vegagerðarinnar og annarra til að meta hversu miklum peningum þeir geta varið til verkefnanna. Ég vonast til að þær upplýsingar sem kynntar hafa verið hjá okkur, bæði af hálfu ráðuneytisins og Vegagerðarinnar sérstaklega, séu réttar og gangi eftir.

Hvað varðar Keflavíkurflugvöll sem formaður fjárlaganefndar hefur kallað öðru hverju í ræðum Keflavíkurflugvöll hinn forna, er það að segja að farið hefur fram nokkuð ítarleg umræða í þinginu um málið. Forsætisráðherra hefur gert ágæta grein fyrir því í þinginu og hvernig málum þar er háttað. Ég tel að komið hafi fram öll meginsjónarmið sem þar skipta máli. Ríkisendurskoðun hefur gengið til verka til að meta verklagið sem þar hefur verið o.s.frv.

Fyrir liggur að kostnaður fellur til vegna hreinsunar svæðisins, skipulagskostnaður og annars sem endurspeglast síðan í fjárlögunum. Hv. þingmaður þekkir þó ágætlega að þeir fjármunir fóru ekki umræðulaust í gegnum (Forseti hringir.) fjárlaganefndina og tekið var til mjög grandvarrar skoðunar hversu mikla fjármuni (Forseti hringir.) ætti að veita, bæði á aukafjárlögum og fjárlögum næsta árs.