135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

afgreiðsla allsherjarnefndar á þingskapafrumvarpinu.

[10:33]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Haft var á orði í umræðu í þinginu í gær að stjórnarmeirihlutinn á Alþingi væri sterkur og öflugur. Það er vissulega rétt að hann er stór hvað fjöldann varðar að ekki sé talað um þegar í meiri hlutann bætast Framsóknarflokkur og Frjálslyndi flokkurinn eins og gerst hefur í þingskapamálinu.

Þingskapafrumvarpið var tekið út úr allsherjarnefnd í gærkvöldi gegn mótmælum fulltrúa þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Við höfðum áður sett fram hugmyndir til málamiðlunar og samkomulags og á fundinum í gær kom fram að VG væri reiðubúið til enn frekari tilslakana og breytinga ef það gæti leitt til niðurstöðu sem allir þingflokkar gætu sætt sig við. Þá vorum við og erum enn reiðubúin að binda það fastmælum að þingskapafrumvarpið verði staðfest sem lög eigi síðar en 8. febrúar nk. Fram til þess tíma mundum við fara gaumgæfilega yfir málið enda er það margslungið. Því fer fjarri að það snúist um ræðutímann einan eins og sumir virðast ætla heldur vinnulag í þinginu, vönduð vinnubrögð svo og möguleika stjórnarandstöðu til að rækja stjórnarskrárbundnar skyldur um að veita framkvæmdarvaldinu og þar með stjórnarmeirihlutanum aðhald. Hinn nýi fjölmenni þingskapameirihluti á Alþingi vildi ekki á slíkt hlusta og er ég ekki frá því að þingflokksformenn Framsóknarflokks og Frjálslyndra hafi gengið harðast fram í óbilgirni sinni. Fulltrúi Framsóknar, sennilega þjakaður af lýðræðisþreytu undangenginna þriggja kjörtímabila með tilheyrandi umræðum um alla Kárahnjúkana, Íraksfylgispektina og einkavinavæðinguna. (Gripið fram í.) Framsókn virðist helst vilja þögn á þingi um óþægileg mál. Hvað vakir fyrir Frjálslyndum þekki ég ekki nema hvað þingflokksformaðurinn virðist jafnan skipa sér með stjórnarandstöðu þegar flokkur hans er í ríkisstjórn en í ríkisstjórn þegar flokkur hans að forminu til er utan stjórnar. (Forseti hringir.)

Samfylkingunni virðist líða vel í faðmlagi með Sjálfstæðisflokknum og vill ekkert láta trufla sína sjálfumglöðu sælu. (Forseti hringir.) En um Sjálfstæðisflokkinn verður að segja að þótt hann sé fjölmennur á þingi er hann ekki stór í sniðum að sama skapi. Sá sem beitir valdi sínu og yfirburðastöðu (Forseti hringir.) eins og hann gerir er í reynd smár. Hann er agnarsmár.