135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

afgreiðsla allsherjarnefndar á þingskapafrumvarpinu.

[10:36]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Mér koma á óvart þau gífuryrði og stóryrði sem hér eru látin falla í ljósi þess að ætlunin er að ræða þingsköpin í dag. Og í ljósi þeirra yfirlýsinga sem féllu í upphafi þessarar umræðu, að aldrei yrði samið um málfrelsið, sem nú er orðið sjónarmið að semja um í þessari umræðu, þá finnst mér afar mikilvægt að sú umræða geti farið fram í dag og hún geti farið fram í dagsbirtu, að sú umræða geti farið fram þegar sem flestir geti fylgst með umræðunni og þeim sjónarmiðum sem menn setja fram, því að meiri hlutinn á þingi hefur verið sakaður um mjög alvarlega hluti. Hann hefur verið sakaður um að hindra málfrelsið, tjáningarfrelsið, allt að því mannréttindabrot og ég veit ekki hvað og hvað. Því er mikilvægt að sú umræða og þær ásakanir sem hv. þingmenn Vinstri grænna hafa sett fram fái að njóta sín í dagsbirtunni, að ekki verði flúið með þær inn í myrkrið, kvöldið eða nóttina heldur verði þær ræddar í dag, það er mjög mikilvægt að sjónarmiðin fái að njóta sín á þeim tíma þegar sem flestir geta horft, þegar sem flestir geta fylgst með umræðunni og myndað sér skoðun á því sem fram fer. Þess vegna finnst mér afar mikilvægt að þessi umræða fari fram í dag í samræmi við þingsköpin, í samræmi við þær reglur sem gilda um meðferð mála á þingi og að Vinstri grænir og aðrir á þinginu geti þá á málefnalegan hátt tekist á um þau sjónarmið sem sett eru fram og hafa verið sett fram í þessu máli.

En ég ítreka það, virðulegi forseti, að það kemur mér á óvart, (Gripið fram í.) miðað við hástemmdar yfrlýsingar í upphafi þessa máls, að nú skyndilega í lok umræðunnar séu Vinstri grænir tilbúnir til að semja um málfrelsið.