135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

afgreiðsla allsherjarnefndar á þingskapafrumvarpinu.

[10:40]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Sá mikli þingskapameirihluti sem hv. þm. Ögmundur Jónasson talar um er til kominn vegna þess að verið er að flytja skynsamlegar tillögur til að koma á skynsamlegri starfsháttum á Alþingi. Þess vegna skapast mikill þingskapameirihluti sem hefur ekkert með ríkisstjórnina eða stjórnarandstöðu að gera eins og dæmin sanna.

Það sem um er að ræða er að með þessum þó takmörkuðu breytingum sem lagðar eru til á þingsköpum Alþingis verður ræðutími lítillega skertur. Samt sem áður leggur allsherjarnefnd til verulega breytingu í átt til þeirra sjónarmiða og hugmynda sem Vinstri grænir hafa komið með. Það er nú svo að þeir sem eru í stjórnarandstöðu geta ekki endalaust gert kröfur og haldið því fram að sé verið sé að brjóta á þeim rétt þegar þeir koma ekki með neina málamiðlun til baka, þegar þeir standa fastir fyrir og neita öllum tillögum og hugmyndum um það sem gæti leitt til sátta. (ÖJ: Hvaða útúrsnúningar eru þetta?) Mjög mikið hefur verið gert til að reyna að ná sáttum hvað þetta varðar en Vinstri grænir hafa ekki gefið neina möguleika til þess að um það væri að ræða og það er þeirra vandamál. Þessi mikli þingskapameirihluti skapast um tillögur sem byggja á heilbrigðri skynsemi, um það að gera Alþingi skilvirkara, að gera lagasetninguna skilvirkari, en ég verð að segja, miðað við þá reynslu sem ég hef af þingstörfunum, að það er vafalaust ekki í fyrsta skipti og vafalaust ekki í það síðasta þar sem stefna Vinstri grænna og heilbrigð skynsemi eru í andstöðu hvor við aðra.