135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

afgreiðsla allsherjarnefndar á þingskapafrumvarpinu.

[10:47]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Ég held að sú umræða sem hér fer fram sýni að það ríkir ekkert sérstaklega innileg og heit samstaða milli þeirrar stjórnarandstöðu sem nú situr á þingi. (Gripið fram í.) Nei, hv. þingmaður. Það er ekkert aðalatriði. Ég kom hér til að fara yfir þá afgreiðslu sem fram fór í gær í hv. allsherjarnefnd en í þeirri nefnd á ég sæti. Sú nefnd hefur fjallað um þetta þingskapamál, að ég tel vel og rækilega og farið yfir alla þætti málsins.

Það er rétt að fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs lagði fram málamiðlunartillögur til umræðu sem voru um margt ágætar en það var hins vegar ekki hægt að fallast á öll þau sjónarmið sem þar komu fram. Meiri hluti nefndarinnar lagði sig hins vegar fram við að reyna að koma verulega til móts við sjónarmið vinstri grænna í mörgum atriðum til þess að miðla málum. Þegar upp var staðið þá treysti fulltrúi Vinstri grænna sér hins vegar ekki til þess að taka í þá útréttu sáttarhönd sem meiri hlutinn rétti og því fór sem fór.

En við verðum að hafa það í huga í þessari umræðu að það eru 54 þingmenn sem standa að baki þessu frumvarpi og styðja það. Ég hlýt að spyrja: Er eðlilegt að níu þingmenn af 63, eins þingflokks af fimm geti komið í veg fyrir það að meginþorri þingheims nái fram breytingum sem þeir allir eru sammála um að gerðar verði á því verklagi sem við förum eftir í þinginu? Ég tel það ekki óeðlilegt. Ég hefði sjálfur hins vegar óskað þess að sátt hefði náðst í þessu máli milli allra þingflokka. Það tókst (Forseti hringir.) ekki en meiri hlutinn verður ekki sakaður um að hafa ekki reynt að ná fram sáttum.