135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

afgreiðsla allsherjarnefndar á þingskapafrumvarpinu.

[10:54]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við höfum í huga í þessu máli að það á sér talsverðan aðdraganda. Þær tillögur sem verið er að ræða í frumvarpinu sem hér um ræðir hafa verið til umræðu á vettvangi þingsins árum saman. Hæstv. forseti tekur upp umræður um þetta við formenn stjórnmálaflokka og formenn þingflokka þegar í sumar. Niðurstaðan er sú að um endanlega útgáfu frumvarpsins næst víðtæk samstaða, þó ekki þannig að vinstri grænir treystu sér til þess að vera með á málinu.

Málið kemur inn í allsherjarnefnd til meðferðar þegar það hefur verið rætt við 1. umr. og þar er gerð ákveðin tilraun til þess að ná samstöðu um breytingar á því frumvarpi sem áður hafði verið samstaða um milli fjögurra flokka.

Vinstri grænir lögðu vissulega fram tillögur um sínar hugmyndir um breytingar á þingsköpum, og því skal rétt til skila haldið, þær voru ekki settar fram sem úrslitakostir, heldur komu fram fjölmargar tillögur sem lutu að breytingum. Þær voru hins vegar mjög fjarri þeim meginmarkmiðum frumvarpsins sem hér hefur verið rætt um og varða verulega styttingu ræðutíma í 2. og 3. umr. Það voru veruleg skil á milli þeirra tillagna sem vinstri grænir kynntu í nefndinni og þeirra tillagna sem var grundvöllurinn að frumvarpinu sem hér var til umræðu.

Engu að síður lagði meiri hluti nefndarinnar talsvert á sig til þess að koma til móts við sjónarmið vinstri grænna. Lagði fram tillögur sem fela í sér fjórar efnislegar breytingar sem við munum væntanlega ræða síðar í dag en allar þessar breytingar voru til þess ætlaðar að koma til móts við sjónarmið vinstri grænna. Engu að síður taldi sá flokkur sér ekki fært að vera með á málinu og (Forseti hringir.) en hélt sig áfram við það sjónarmið að það ætti að fresta því. Þetta taldi meiri hlutinn ekki viðunandi og vildi klára málið og það skýrir það hvers vegna það kemur inn á þessari (Forseti hringir.) stundu.