135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[11:13]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Þegar nú er komið að lokaafgreiðslu á fjárlögum fyrir næsta ár verð ég að segja fyrir mig að ríkisstjórnin gáir illa að sér. Það er mikil verðbólga undirliggjandi í samfélaginu og ég verð að segja að mér finnst sá sem með efnahagsstjórnina fer, hæstv. forsætisráðherra, daufgerður, jafnvel tvíhöfða í málflutningi sínum. Ég sé að hann segir, með leyfi forseta, í útvarpinu að þó að verðbólgan sé mikil um þessar mundir séu horfur ágætar um að hún minnki á næstunni. Hann bendir á að húsnæði hækki ekki jafnmikið og áður, aukin opinber útgjöld séu þó ekki skynsamleg við þessar aðstæður.

Hér er verið að hækka fjárlög um hátt í 20% milli ára, verður sennilega 25%, þannig að ríkisstjórnin gefur í verðbólgueldinn á sama tíma og allar eftirlitsstofnanir erlendar og Seðlabankinn vara mjög við þessari þróun. Ríkisstjórnin er aðgerðalaus og samkvæmt tölum sem Hagstofan birti í gær er 12 mánaða verðbólga nú 5,9% en í ágúst var hún 3,4%. Verðbólgan stígur. Í desember í fyrra var 12 mánaða verðbólga hins vegar 7% þannig að horfurnar á harðri lendingu í efnahagslífinu eru miklu líklegri eftir að þessi fjárlög hafa verið gerð. Nú liggur fyrir að ríkisstjórnin hefur gefið inn í hagkerfið, hún er ekki í takt við allt það sem varað er við. Hæstv. fjármálaráðherra sem er fjarverandi í dag liggur eins og ormur á gulli, það hækkar undir koddanum hjá honum. Ekki dettur ríkisstjórninni t.d. í hug að grípa til þeirra aðgerða að lækka olíugjaldið tímabundið sem mundi hafa áhrif á verðbólguna strax. Það liggur fyrir að olía á Íslandi er orðin dýrari en bensín.

Nei, þetta skapar miklar tekjur sem hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra grobba sig af. Fólkið á bifreiðunum sem fer á milli vinnustaða og í erindum sínum borgar hærri og hærri gjöld fyrir bensín og olíu, og olían er orðin dýrari. Ríkisstjórnin er sem sé ekkert að gera í efnahagsmálum og það er alvarlegur vitnisburður um fyrstu fjárlög þessarar ríkisstjórnar, hún tók ekki á í efnahagsmálum þegar hún tók við. Það var gert 1999, það var gert 2003 þannig að þessi ríkisstjórn er því miður ábyrgðarlaus og það mun bitna á ungu skuldugu fólki og fyrirtækjum í hærri og hærri vöxtum, Seðlabankinn einn stendur vaktina hér heima, (Forseti hringir.) ríkisstjórnin segir því miður ekki neitt um efnahagsmál, skilar auðu og (Forseti hringir.) fjárlögum sem eru þenslufjárlög við þessar vondu aðstæður á Íslandi.