135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[11:23]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við göngum til atkvæða um fjárlög ársins 2008. Það er lærdómsríkt að fylgjast með þeirri umræðu sem hinn stóri stjórnarmeirihluti heldur uppi um fjárlög þessi. Það er eitt einkenni mjög sterks meiri hluta að hann telur sig í rauninni algerlega óbundinn af staðreyndum. Hann gengur t.d. algerlega óbundinn af veruleikanum sjálfum og telur sig geta sveigt hann til og sagt að svart sé hvítt. Það eru slæm skilaboð, og það eru slæm skilaboð til þjóðarinnar í þessum fjárlögum sem eiga eftir að verða okkur erfið á þeim erfiða vetri kjarasamninga sem fram undan er. Við framsóknarmenn munum hér eftir sem hingað sitja hjá til við atkvæðagreiðslur um einstaka kostnaðarliði, ekki vegna þess að hér séu ekki þjóðþrifamál á ferðinni heldur vegna þess að boginn er spenntur allt of hátt og ekki tekið tillit til aðstæðna í efnahagslífi. Það er beinlínis, herra forseti, raunalegt að hlýða á ummæli hæstvirtra ráðherra um að þetta séu aðhaldssöm fjárlög. Það eru þau ekki, en þetta er það sem gerist þegar meiri hluti er mjög sterkur, hann telur sig geta sagt eitthvað sem á sér enga stoð vegna þess að mótmælin verði svo hjáróma. Það er ekki svo að þetta séu aðhaldssöm fjárlög eins og hæstv. forsætisráðherra hefur látið hafa eftir sér í fjölmiðlum. Og það er ekki svo að þetta sé gott innlegg í kjarasamningaviðræður eins og skilja mátti af ummælum hæstv. utanríkisráðherra í fjölmiðlum í gær þar sem hún tók fram að eitt helsta innlegg ríkisstjórnarinnar í kjarasamningaviðræðurnar hlyti að vera ábyrg efnahagsstjórn.

Þessi fjárlög eru ekki í neinu samræmi við þau kosningaloforð sem gefin hafa verið, þau eru aðeins í samræmi við það samstöðuleysi, það úrræðaleysi og það slæma hjónaband sem þjóðin er dæmd til að sitja undir og búa við með þessu ríkisstjórnarsamstarfi.

Við munum því í allflestum málum varðandi útgjaldaauka og einnig varðandi tekjuhliðina sitja hjá. Ég mun gera betur grein fyrir því á eftir eftir því sem tími vinnst til en við munum greiða atkvæði með lítils háttar tillögu á þskj. 465, vegna háskólans á Vestfjörðum, sem ég er flutningsmaður að ásamt öðrum minnihlutafulltrúum í fjárlaganefnd. Við munum sömuleiðis styðja tillögur hv. þm. Dýrleifar Skjóldal og Steingríms J. Sigfússonar um framlög vegna Hlíðarskóla í Eyjafirði, enda teljum við það mikið jafnræðismál. Báðar þessar tillögur eru til óverulegs útgjaldaauka en er réttlætismál að nái fram að ganga.

Ég mun síðar í dag gera grein fyrir atkvæðagreiðslu okkar í málefnum (Forseti hringir.) Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar.