135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[11:26]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Nú liggur fyrir á Alþingi að greiða atkvæði um þau fjárlög sem hér hafa verið til umræðu frá 1. október. Eins og hv. þingmenn þekkja hafa fjárlögin verið í smíðum hér í marga mánuði, allt frá ársbyrjun og jafnvel allt frá síðasta ári því að þannig hefur vinnulagið verið, fjölmargir hafa komið að slíku verki sem fjárlögin eru hverju sinni.

Ég vil nota tækifærið fyrir hönd fjárlaganefndar til að þakka öllum þeim sem hafa komið að þessu verki, hvort sem er í ráðuneytunum eða annars staðar, líkt og hér í þinginu. Við höfum fjallað um fjárlögin í þrennum umræðum og tekið í það hátt í 48 klukkustundir, að mér skilst, sem þýðir að margar ólíkar skoðanir hafa komið fram og margt hefur verið sagt í þeirri umræðu.

Það er auðvitað hlutverk okkar hér við afgreiðslu fjárlaganna að standa vörð um sjálfstæði þingsins og um leið að efla eftirlitshlutverk Alþingis. Við höfum gert það með því að rýna í fjárlagafrumvarpið eins og það kom fram til umræðu þann 1. október.

Stóru breytingarnar milli 2. og 3. umr. felast í aðgerðum til að bæta kjör aldraðra og öryrkja, en einnig er um að ræða færslur á milli ráðuneyta, líkt og við þekkjum í umræðu um stjórnarráðsfrumvarpið. Til að mynda aukast útgjaldaliðir félagsmálaráðuneytisins um 160% á milli ára við þann tilflutning sem boðaður er. Munar nú litlu á milli félagsmálaráðuneytis og heilbrigðismálaráðuneytis. Frá 1. umr. til 3. umr. hefur útgjaldaaukning orðið 4 milljarðar, 0,9%, en tekjuaukning hefur orðið 12 milljarðar, 2,6%. Tekjuafgangur frumvarpsins er nær 40 milljarðar kr.

Hv. þingmenn, ég hef boðað ákveðnar breytingar í fjárlaganefndinni varðandi fjárlagagerð og eftirlit sem lýtur að framkvæmd fjárlaga. Ég vona að flestir þingmenn geti tekið þátt í þeirri vegferð og ég hvet ykkur til að styðja sem flestar tillögur sem bornar eru hér upp af hálfu meiri hlutans. Tillögur minni hlutans hafa komið inn í umræðuna á síðustu dögum (Forseti hringir.) og ég hef sagt að ég hefði viljað sjá þær fyrr á ferðinni í nefndinni en reyndin varð. (JBjarn: … endurfluttar við 2. umr.) (Gripið fram í: … hafa … snarvitlausar.)