135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[11:41]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja að ég sakna þess hversu lítil umræða varð um þessa breytingartillögu í gær þegar við vorum í lokaumræðu um fjárlög. Það er fremur dapurlegt að þegar við, hv. þingmenn, fáum tækifæri til að breyta skólakerfinu okkar með því að gefa listgreinunum aukið vægi og tryggja að þeir framhaldsskólanemar sem eru á listnámsbrautum fái það öfluga starf sem við hér í orði kveðnu segjum alltaf að við viljum að þau fái skulum þá ekki nota tækifærið betur en taflan hér gefur til kynna að við ætlum að gera. Hér er talað um að auka og efla listgreinakennslu innan framhaldsskólanna og auðvelda ungu fólki að taka stúdentspróf af listnámsbrautum. Ég segi að sjálfsögðu já og mér þykir leitt að sjá að ekki fleiri en við þingmenn Vinstri grænna gerum það. (Gripið fram í: Nú?) Og frjálslyndir.