135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[11:50]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Ég geri grein fyrir þeirri afstöðu okkar framsóknarmanna að sitja hjá við atkvæðagreiðslu um heiðurslaun listamanna að þessu sinni, sem er hér samkvæmt breytingartillögu en kemur einnig fyrir í lið 12.a ef ég skil frumvarpið rétt, sem við greiddum atkvæði um áðan. Ástæðan fyrir því að við sitjum hjá er að okkur þykir raunalegt að stjórnarmeirihlutinn, sem ekki getur komið sér saman um efnahagsmálin og ekki getur komið sér almennilega saman um breytingar á Stjórnarráðinu, geti ekki einu sinni komið sér saman um listamannalaun þannig að með eðlilegum hætti megi bæta á lista heiðurslistamanna eins og til stóð og tölu þeirra yrði haldið óbreyttri frá því sem var, heldur er hér farin sú leið … (SKK: Komdu með þetta í lög.) (Gripið fram í: Bara tillaga.) Ég er (Forseti hringir.) tilbúinn til að koma með tillögu hér ef þingsköp heimila að ég komi með hana munnlega í ræðustól Alþingis, já. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.)

(Forseti (StB): Forseti vill vekja athygli hv. þingmanna á því að hér er verið að greiða atkvæði um tillögu. Aðrar tillögur liggja ekki fyrir en sú sem hér er til umfjöllunar og við greiðum atkvæði um.)

Ég ítreka að ég tel þetta raunalega niðurstöðu í stjórnarsamstarfi þar sem sundurlyndið er ríkjandi, að þar hafa menn ekki einu sinni (Forseti hringir.) getað komið sér saman um heiðurslaunalistamenn.