135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[11:52]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hér er ekki farið fram á mikið. Farið er fram á að 8,7 millj. kr. bætist við liðinn Ýmis framlög menntamálaráðuneytis til að hið merka starf sem unnið er í Hlíðarskóla á Akureyri fái sambærilega úrlausn og meðferð á jafnréttisgrundvelli á við þá sem frumvarpið á, gleðilega, að veita Gaulverjaskóla, sem reyndar tekur í starfsemi sinni mið af því frumkvöðlastarfi sem unnið var í Hlíðarskóla.

Í Hlíðarskóla eru 16 pláss fyrir drengi og átta pláss fyrir stúlkur sem eiga við ýmiss konar hegðunar-, aðlögunar- og samskiptaerfiðleika að stríða, auk þess sem fimm pláss eru ætluð börnum með geð- og þroskaraskanir. Það er mikið réttlætismál og sjálfsagt að ríkisvaldið búi að þessari starfsemi og styðji við hana á jafnræðisgrundvelli þar sem verið er að byggja hana upp í landinu. Það er óskaplega dapurlegt að ekki einu sinni í þessu litla tilviki geti hæstv. ríkisstjórn eða meiri hlutinn brotið odd af oflæti sínu og samþykkt nokkurn skapaðan hlut sem (Forseti hringir.) kemur frá stjórnarandstöðunni.