135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[11:58]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Í þessum málum er mjög margt jákvætt að gerast, m.a. í þessum fjárlögum. Ef ég man rétt aukast framlög til þróunaraðstoðar í þessum fjárlögum um ríflega 700 millj. kr. Því má segja að jákvæðir hlutir séu að gerast og mjög jákvæð þróun í gangi. Við erum hins vegar ekki komin upp í 0,7% af vergri landsframleiðslu eins og þúsaldarmarkmiðin segja til um. En það er til skoðunar í utanríkisráðuneytinu með hvaða leiðum og hvernig það geti þá best gerst að við komumst upp í það markmið. (Gripið fram í.)

Ég held að það brýnasta sem við stöndum andspænis núna sé að endurskoða lögin um þróunaraðstoð vegna þess að þau eru 25 ára gömul. Meðan þau lög gilda erum við ekki með þann ramma um aðstoðina sem þarf að vera til þess að þetta sé gert með ábyrgum og skilvirkum hætti.