135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[12:00]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að koma hér upp einu sinni enn og gera grein fyrir atkvæðum okkar framsóknarmanna. Hér er, eins og í svo mörgum öðrum atkvæðagreiðslum í dag, um mjög þörf og brýn málefni að ræða en við höfum þó kosið að sitja hjá enda teljum við að eins og ráðslag er í ríkisstjórninni, eins og allt aðhald vantar í þetta fjárlagafrumvarp, þá sé það í heild sinni ábyrgðarlaust og við berum ekki ábyrgð á því. Jafnvel þótt við séum í pólitískri sannfæringu okkar hlynntir einstökum verkefnum og reyndar allmörgum teljum við að almennt hefði átt að gæta meira aðhalds og í ríkisstjórnina vanti í rauninni það skynsemisafl sem síðasta ríkisstjórn hafði með þátttöku Framsóknarflokksins en skortir nú mjög á þar sem skipt hefur verið um.