135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[12:07]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í þessum fjárlögum erum við að greiða atkvæði um verulega fjármuni til að hrinda í framkvæmd aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar um verulega bætt kjör lífeyrisþega, bæði aldraðra og öryrkja. Það eru um 5 milljarðar kr. á ársgrundvelli sem eru lagðir til í þessa aðgerðaáætlun. Afnumin verður tekjutenging (Gripið fram í.) við tekjur maka á þessu ári, hv. þingmenn, (Gripið fram í: Á þessu ári?) algjörlega afnumin tekjutenging við tekjur maka á næsta ári sem er baráttumál bæði aldraðra og öryrkja. Það er verið að hækka frítekjumörk, það er verið að hækka vasapeninga fyrir þá sem eru á stofnunum, (Gripið fram í.) sjúklinga á stofnunum, og það er verið að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir of- og vangreiðslur hjá Tryggingastofnun ríkisins til að koma í veg fyrir óréttlátar endurkröfur. Og ég vil nefna það hér að verið er að gera verulegt átak í hjúkrunarmálum aldraðra og á næsta ári koma í fyrsta skipti greiðslur úr Framkvæmdasjóði aldraðra (Forseti hringir.) óskiptar í uppbyggingu í þágu aldraðra. Ég segi já.