135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[12:11]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Forseti. Hér er lagt til að bæta 400 millj. kr. inn á liðinn Lífeyristryggingar og eyrnamerkja þær því viðfangsefni að koma til móts við lífeyrissjóðina þannig að þeir geti haldið óbreyttum greiðslum til lífeyrisþega og ekki komi til framkvæmda eða verði áframhald á þeirri skerðingu sem hófst 1. desember sl. og var mjög tilfinnanleg fyrir marga sem þar misstu jafnvel tugi þúsunda króna af naumum framfærslueyri sínum.

Ríkisstjórnin bauð lífeyrissjóðunum 100 millj. kr. ef þeir væru tilbúnir til að falla frá þessari skerðingu en gafst svo upp þegar það var ekki þegið. Látið var stranda á því að í staðinn fyrir að hafa þetta 300–400 millj. kr. sem mundi duga hafði ríkisstjórnin ekki efni á nema 100 og afsakar sig svo með því að lífeyrissjóðirnir hafi ekki þegið það og þar með sé það væntanlega ekki á hennar ábyrgð að þessi skerðing kemur til framkvæmda. Að sjálfsögðu á að samþykkja þessa hækkun þannig að ekki komi til skerðingarinnar (Forseti hringir.) á næstu mánuðum og það verði svo skoðað í framhaldinu í tengslum við heildarendurskoðun þessara mála hvernig þessu verður skipað.