135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[12:29]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Það rétt og það er athyglisvert að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, hvaða kjördæmi svo sem þeir sitja fyrir á hv. Alþingi, lýsa stuðningi við þessa tillögu um að styrkja heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu meðan þingmenn þeirra íbúa sem heilsugæslan á að þjóna ýmist sitja hjá eins og hv. þingmenn Framsóknarflokksins eða greiða atkvæði gegn þessari sjálfsögðu tillögu. Við skulum muna að með niðurskurðinum er vegið að rótum hins besta í íslensku heilbrigðiskerfi, mæðraverndinni, ungbarnaeftirlitinu, því sem hefur lyft okkur Íslendingum á topp í samanburði í heilbrigðisþjónustu við önnur lönd.

Dagskipunin er greinilega sú að teppaleggja í heilbrigðisþjónustu á höfuðborgarsvæðinu fyrir einkavæðinguna. (Forseti hringir.) Við viljum það ekki. Við leggjum til aðrar leiðir og ég segi já.