135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[12:31]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Með því framlagi sem gert er ráð fyrir, herra forseti, í fjárlagafrumvarpi er starfsemi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins stefnt í uppnám. Stjórnendur segja að grípa þurfi til alvarlegra niðurskurðaraðgerða, svo sem að því er varðar skólaheilsugæslu, mæðravernd, heimahjúkrun, ungbarnaeftirlit o.fl. Því verður vart trúað að ríkisstjórnarmeirihlutinn ætli að skella skollaeyrum við því ákalli sem komið hefur frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, að stjórnarmeirihlutinn ætli að svelta hana til einkavæðingar. Það er þyngra en tárum taki að heyra nú hvern þingmanninn á fætur öðrum úr röðum þeirra sem um langt árabil hafa barist fyrir efldri heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu, bæði hér í sölum Alþingis og á vettvangi borgarstjórnar, segja nú nei í þessari atkvæðagreiðslu. Er það félagshyggja Samfylkingarinnar í verki? Ég segi já.