135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[12:33]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Með þessari tillögu leggjum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs til að 100 millj. kr. renni aukalega til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni. Það er eingöngu til að koma lítillega til móts við þann mikla fjárhagsvanda sem er á nær öllum stofnununum. Ekki er möguleiki fyrir stofnanirnar að fara í þróunarstarf, hvað þá að bæta sérfræðiþjónustu eða aðra þjónustu innan þeirra. Stöðnun er á mörgum sviðum og erfitt að ráða fólk. Hvað Heilbrigðisstofnun Austurlands varðar leggjum við til að aukalega fari til hennar 260 millj. kr. Heilbrigðisstofnunin á í mjög miklum erfiðleikum, eins og komið hefur fram í skoðanakönnunum hvað varðar þjónustu. Megn óánægja er á meðal íbúanna á Austurlandi með þjónustu stofnunarinnar vegna þess að hún hefur ekki haft mannafla, ekki aðstöðu til að veita þá þjónustu sem hún gerði (Forseti hringir.) áður en hið mikla þensluástand brast á. Ég segi því já, (Forseti hringir.) hæstv. forseti, við þessum tillögum.