135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[12:35]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Skyldu menn muna eftir umræðunni um barnabætur undir þinglok fyrir síðustu kosningar? (Gripið fram í: Já.) Við stóðum þá í ræðustól, ég og hæstv. núverandi félagsmálaráðherra, (BJJ: Nákvæmlega.) og töluðum um þá miklu skerðingu sem orðið hefði á barnabótum á undangengnum þremur kjörtímabilum. Hæstv. núverandi félagsmálaráðherra talaði um hrikaleg svik í því efni sem yrðu leiðrétt þegar jafnaðarmannaflokkur Íslands yrði kominn í ríkisstjórn. Nú er jafnaðarmannaflokkur Íslands kominn í ríkisstjórn og viti menn, hvað gerist? (Gripið fram í: Það er búið að veita milljarð út í velferðarkerfið.) (Gripið fram í: Já.) Áætlað er á næsta fjárlagaári að skerða barnabætur að raungildi. Ég er sannfærður um að það er ekki að skapi hæstv. félagsmálaráðherra en hvað veldur? Er ekki samstaða um þessa stefnu lengur í Samfylkingunni eða lætur hún Sjálfstæðisflokkinn setja (Forseti hringir.) sér stólinn fyrir dyrnar í þessu efni? Ég er ansi hræddur um að við eigum eftir að ræða það nánar áður en þingið fer heim.