135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[12:38]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Forseti. Í þessari breytingartillögu er lagt til að auka framlag til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga samtals að upphæð 2.400 millj. kr. Þar er í fyrsta lagi um að ræða sérstakt viðbótarframlag til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga upp á 700 millj., 700 millj. sem fyrsta áfanga í gjaldfrjálsum leikskóla og 1.000 millj. vegna hækkunar húsaleigubóta. Það er nauðsynlegt.

Til að bregðast við húsnæðisvanda fjölmargra einstaklinga og fjölskyldna í landinu leggjum við hér til einn milljarð sem settur verði í húsaleigubætur. Þá eru lagðar til breytingar til að jafna stöðu landsbyggðarinnar gagnvart höfuðborgarsvæðinu en þar er um 700 millj. kr. aukningu að ræða til að bæta fjárhagsstöðu skuldugra sveitarfélaga.

Loks er gerð tillaga um fjárveitingu til að ná fyrsta áfanga gjaldfrjáls leikskóla sem verið hefur baráttumál margra stjórnmálaflokka, m.a. fyrir síðustu kosningar, og maður skyldi ætla að stuðningur væri við það mál hér í röðum félagshyggjuflokkanna á Alþingi (Forseti hringir.) en svo reynist því miður ekki vera. Ég segi já.