135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[12:48]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Það er eiginlega að verða dálítill farsi í kringum þetta mál allt saman, þ.e. að ríkisvaldið komi eitthvað til aðstoðar í sambandi við háan flutningskostnað á landsbyggðinni. Þetta er mál sem við framsóknarmenn börðumst fyrir í síðustu ríkisstjórn en náðum ekki árangri í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.

Sá sem hafði hæst á síðasta kjörtímabili um þetta mál var hv. þingmaður sem nú er hæstv. ráðherra, Kristján Möller. Hann hafði ekki sýnt þann manndóm þar til fyrir nokkrum dögum að ætla að beita sér í þessu máli. Þá kemur fram opinberlega að það eigi að skipa nefnd um að móta tillögur um lækkun á flutningskostnaði. Hver skyldi vera formaður í þeirri nefnd? Ekki fékk hæstv. samgönguráðherra að hafa þar sinn mann sem formann heldur er það 1. þm. Norðaust. Kristján Þór Júlíusson, eftir því sem ég las einhvers staðar í blaði (Gripið fram í.) þannig að Sjálfstæðisflokkurinn virðist nú ætla að (Forseti hringir.) reyna að gera eitthvað í þessum málum en hann ætlar að sjálfsögðu að þakka sér það en ekki leyfa samgönguráðherranum að njóta þess.