135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[12:51]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ríkisstjórnarmeirihlutinn leggur í þessari atkvæðagreiðslu til ákveðnar hækkanir á fjárlagaliðnum Umhverfisstofnun og er það vel og munum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs styðja þá hækkun en hún lýtur fyrst og fremst að auknum kostnaði við innleiðingu vatnatilskipunarinnar og auknum kostnaði vegna loftslagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Hins vegar er þessi tillaga sem við greiðum atkvæði um hér varðandi landvörsluna olnbogabarn þessarar ríkisstjórnar og reyndar þeirrar fyrri líka. Landvarslan hefur verið svelt um árabil. Við leggjum til í þessari tillögu að 25 millj. verði settar í landvörslu á friðlýstum svæðum og náttúruverndarsvæðum. Ég segi því já.