135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[13:08]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Hér er verið að leggja til að Matís, sem breytt var í hlutafélag um síðustu áramót, verði aftur breytt í ríkisstofnun. Breytingin hefur reynst illa og komið í ljós að hún var hrein mistök.

Það hefur einnig sýnt sig að það voru mistök að breyta Flugstoðum í hlutafélag. Brýnt er að nota tækifærið og breyta Flugstoðum aftur í ríkisstofnun, ekki síst í ljósi þess að nú mun flugumferðarstjórn á Keflavíkurflugvelli færast undir samgönguráðuneytið. Það er því eftirsóknarvert að þjónustan og reksturinn lúti öll lögum og reglum sem gilda um opinberan rekstur og þar með ráðningu starfsmanna.

Það hefur ekki komið fram með hvaða hætti þessi sameining verður í samgönguráðuneytinu. Flugstoðir er hlutafélag, starfsmenn á Keflavíkurflugvelli eru opinberir starfsmenn. Mér finnst óverjandi að ekki komi fram skýring á því hvernig framhaldið á að verða í þeim málum áður en við afgreiðum fjárlög. (Forseti hringir.) Ég legg áherslu á, og við þingmenn Vinstri grænna, að flugumferðarstjórn og rekstur flugvalla í landinu (Forseti hringir.) verði undir opinberri stofnun, að hún verði ekki einkavædd.