135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[13:12]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Hér hafa verið samþykkt fyrstu fjárlög nýrrar ríkisstjórnar og þau eru fyrir margra hluta sakir mjög merkileg. Í fyrsta lagi er verulegur afgangur af fjárlögunum eða rétt tæpir 40 milljarðar kr. Það endurspeglar sterka stöðu ríkisfjármála og er mikilvægt framlag til stöðugleika í efnahagsmálum. Engu að síður er að finna í þessum fjárlögum mörg mjög merkileg nýmæli sem lúta að því að styrkja stöðu yngstu og elstu kynslóðanna í landinu. Nægir þar að nefna verulegt átak í málefnum aldraðra og öryrkja sem ráðist er í og kostar um 5 milljarða kr. á ársgrundvelli. Framkvæmdaáætlun í málefnum barna og ungmenna kemur til framkvæmda og miklar byggðaaðgerðir eru í fjárlögunum. Eftirlitsstofnanir eru styrktar, bæði þær sem eiga að hafa eftirlit með markaðnum og stjórnsýslu ríkisins og síðast en ekki síst, virðulegur forseti, er verulega tekið á í heilbrigðislögum. (Forseti hringir.)

Í fjáraukalögum komu 2 milljarðar kr. til Landspítalans (Forseti hringir.) og milljarður kemur hér í meðferð fjárlaganefndar til Landspítalans. Heimahjúkrun (Forseti hringir.) mun þrefaldast á milli áranna 2006 og 2009 ef þetta verður að veruleika. Hér eru því, (Forseti hringir.) virðulegur forseti, merkileg fjárlög á ferðinni. (Gripið fram í.)