135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[13:17]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Hér höfum við afgreitt þær breytingartillögur sem meiri hluti fjárlaganefndar stóð að í góðri sátt og hafði unnið að þeim heiðarlega með minni hluta. Hér hafa menn farið vítt um völl og eins og gengur eru skiptar skoðanir um ágæti einstakra tillagna. Í heildina geta allir verið sammála um að afkoma og staða ríkissjóðs er afspyrnusterk.

Það getur ekki staðist sem hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir segir, að allir hafi fengið allt í þessum efnum. Ekki fékk Framsóknarflokkurinn sínu framgengt þegar talsmaður hans lagði í gær það eitt til málanna að fresta því að bæta kjör aldraðra og öryrkja og draga úr samgöngubótum á landsbyggðinni. Það voru tillögur Framsóknarflokksins við þá fjárlagagerð sem hér liggur fyrir. Megi þeir hafa skömm fyrir það.

Ég er mjög stoltur af stöðunni í ríkisfjármálum og afskaplega (Gripið fram í.) stoltur af því að hafa fengið tækifæri til að taka þátt í þessari gjörð (Gripið fram í.) sem styrkir stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna.