135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

tilhögun þingfundar.

[14:17]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég á þess kost einan að kveðja mér hljóðs undir þessum dagskrárlið til að segja félögum mínum í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hvað standi til að gera hér á næstu mínútum og klukkutímum.

Ég óskaði eftir því í gær að þingskapafrumvarpið umdeilda yrði ekki tekið á dagskrá fyrr en í fyrsta lagi klukkan sex í dag. Við þyrftum á þeim tíma að halda til að vinna að þeim breytingartillögum sem eru í vinnslu hjá okkur svo og greinargerð með frumvarpinu. Og viti menn: Til að ræða málið einnig í okkar þingflokki, til að ganga frá málunum í þingsal. Þessu hefur verið hafnað af hálfu hæstv. forseta þingsins og þingskapameirihlutans á Alþingi, þ.e. ríkisstjórnarflokkanna Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, Framsóknarflokks og Frjálslyndra. Þingskapameirihlutinn sem stendur sameiginlega að þessum vinnubrögðum hefur hafnað því að málinu verði frestað þar til klukkan sex í dag svo okkur gefist gott tóm til að ræða málið.

Ég vil upplýsa þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um það að til stendur að taka hér til umræðu 3. umr. mál og byrja á 8. dagskrárlið og síðan hefur forseti, með tilstyrk þingskapameirihlutans á Alþingi, ákveðið að gera hlé á þingfundi klukkan hálffjögur fyrir þingflokksfundi. Það er hugsanlegt að frumvarp okkar eða breytingar við frumvarpið verði tilbúnar fyrir þann tíma. Það er hugsanlegt en það er ekki öruggt. Heppilegra hefði verið að mínum dómi, svo ég endurtaki það, að frestur yrði gefinn til klukkan sex, þannig að við gætum unnið þetta mál á sómasamlegan hátt en á ekkert er hlustað nú. Menn eru búnir að uppgötva hvað hægt er að gera í krafti fjöldans, ríkisstjórnarflokkarnir, Sjálfstæðisflokkur og Samfylking, með tilstyrk og dyggri aðstoð Frjálslynda flokksins og Framsóknarflokksins hér á þingi.