135. löggjafarþing — 44. fundur,  13. des. 2007.

frestun á fundum Alþingis.

320. mál
[16:13]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Mér leikur hugur á að vita, ef fundum Alþingis verður nú frestað fljótlega samkvæmt þessari tillögu, hvort hæstv. ríkisstjórn hafi rætt eitthvað í sinn hóp um það eða mótað einhverja nýja stefnu í sambandi við mögulega meðferð sína á bráðabirgðalagasetningarvaldi, hvort við því megi búast, eftir atvikum í jólahléinu þegar bráðabirgðalagasetningarvaldið stofnast með formlegri þingfrestun á grundvelli tillögu, að ríkisstjórnin grípi til þess að setja bráðabirgðalög bili raflagnir einhvers staðar í landinu eða ef framlengja þarf gildistíma einhverra slíkra hluta eins og borið hefur við í tíð núverandi ríkisstjórnar.

Þegar upp er staðið var framganga ríkisstjórnarinnar að þessu leyti strax á sínum fyrstu mánuðum mikið hneyksli. Þess vegna er ástæða til að spyrja hvort búast megi áfram við sömu léttúðinni gagnvart stjórnarskrá og lögum eða hvort ríkisstjórnin hafi eitthvað endurmetið stöðu sína í þessum efnum og geti fullvissað okkur um að ekki verði aftur gripið til þess að setja bráðabirgðalög af jafnfráleitri ástæðu og þar var borið við og hvort hæstv. forsætisráðherra er tilbúinn til að fullvissa okkur um að frekar en að gripið yrði til slíks yrði Alþingi einfaldlega kvatt saman til funda.