135. löggjafarþing — 44. fundur,  13. des. 2007.

stjórn fiskveiða.

91. mál
[16:18]
Hlusta

Árni Johnsen (S) (frh.):

Virðulegi forseti. Þar var komið í ræðu minni um þá breytingartillögu sem ég legg fram varðandi veiðileyfagjaldið, um að gjaldið sé fellt út, að ég var að fjalla um kommúnisma Morgunblaðsins. Það orð er sérstakt í sambandi við það blað en sagan sýnir að ritstjórar Morgunblaðsins beittu sér fyrir því um árabil umfram aðra á Íslandi að setja á veiðileyfagjald í fiskveiðum. Reyndar lögðu þeir jafnframt til að auðlindagjald yrði lagt á aðrar auðlindir landsins en það hefur ekki gengið eftir og eru engin áform um það. Ég vil vekja athygli á því að ef Orkuveita Reykjavíkur ætti að borga auðlindagjald á sömu forsendum og sjávarútvegurinn ætti hún að borga 811 milljónir í auðlindagjald, Landsvirkjun ætti að borga 1.417 milljónir í auðlindagjald.

En það er ekki sama Jón og séra Jón, það er gengið að landsbyggðinni, það er níðst á landsbyggðinni vegna þess að landsbyggðin greiðir 85% af veiðileyfagjaldinu en höfuðborgarsvæðið 15%. 35% íbúa landsins búa á landsbyggðinni og þeir borga 85% af veiðileyfagjaldinu. Það sér hver heilvita maður, virðulegi forseti, að í þessu felst engin sanngirni. Þarna er slík mismunun að með ólíkindum er, ekki síst í okkar landi þar sem hallar frekar á landsbyggðina en aðrar byggðir landsins á þéttbýlli svæðum. Auðvitað eiga allir að sitja við sama borð, það á ekki að refsa fólki fyrir að vinna fisk í stað þess að selja verðbréf, versla með banka eða sinna öðrum þáttum sem skila takmörkuðum verðmætum inn í þjóðarbúið og eru lítt atvinnuskapandi og engin augsýnileg verðmæti liggja á bak við. Í stuttu máli: Þetta er rangt og þetta er óheiðarlegt gagnvart landsmönnum á landsbyggðinni.

Sjávarbyggðunum hefur blætt og blæðir meira með þorskskerðingunni. Í atvinnuuppbyggingu hefur ríkið gripið til umdeildrar uppbyggingar í stóriðju og virkjunum og m.a. hefur skattaívilnunum verið beitt. Er það eðlilegt að sjávarplássum landsins sé hegnt fyrir það, eins og ég vék að áðan, að vinna fisk í stað þess að bræða ál, selja verðbréf eða virkja orku? Það er ekki eðlilegt. Þá er ljóst að auðlindaskatturinn leggst þyngst á köldustu svæði landsins vegna þess að þar er kostnaður við allan rekstur meiri, þar er dýrara að lifa og dýrara að reka fyrirtæki. Þetta ber allt að sama brunni, það er ekki hugsað til enda.

Áætluð hækkun veiðigjalds er úr 0,91 kr. á kíló í 2,42 kr. á kíló eða 266% milli ára. Slíkt á ekki að gerast í eðlilegu rekstrarumhverfi. Þá veldur það furðu að aðeins eigi að fresta veiðileyfagjaldi á þorski en ekki á öðrum tegundum sem standa veikt. Hvaða aðrar tegundir standa veikt á Íslandsmiðum? Það eru til að mynda kolmunni, kolategundir, ufsi og karfi. Auk þeirra tegunda er veruleg skerðing á loðnu.

Það eru margir vankantar á framkvæmd veiðileyfagjaldsins auk þess sem það er valdbeiting gegn einni atvinnugrein umfram aðrar á Íslandi. Gjaldið leggst á aflaheimildir tegunda óháð afkomunni í þeim tegundum. Skattstofninn er aflaverðmæti skipaflotans í heild að frádregnum rekstrarkostnaði en inn í rekstrarkostnaðinn vantar afskriftir og heildarkostnað af fjármagni. Veiðar utan landhelgi Íslands eru skattlagðar og skattlagning er óháð aflabrögðum eða afkomu í einstökum tegundum. Allt ber þetta að sama brunni, það er siglt á þessa atvinnugrein, það er keyrt á hana, það er notuð sleggja á hana og hún á það ekki skilið. Innan greinarinnar er mikil mismunun. 30% af veiðiheimildum í þorski hafa flust til svokallaðra smábáta, 30% hafa flust frá hinum svokölluðu vertíðarbátum yfir til smábáta. Skerðing aflamarks skipa í ýsu frá fiskveiðiárinu 1991/1992 er 16% af leyfilegum heildarafla. (Gripið fram í: Það hefur líka … fyrir landshlutanum.) Það sérstæða er að þrátt fyrir umdeilt kerfi um langt árabil hefur tiltölulega mjög lítil röskun orðið á tilfærslu milli svæða í landinu og það er nokkuð merkilegt í þessu umdeilda kerfi sem sýnir að það heldur þó jafnvægi á margan hátt en það er sitt hvað, kvótakerfið og gjaldtakan á því sem um er fjallað í þessari stöðu.

Mismunun er haldið við með línuívilnun, með röngum slægingarstuðlum og byggðakvóta. Allir þessir þættir bjaga og skekkja kerfið án þess að nokkur rök séu fyrir því. Það hefur sýnt sig í framkvæmd þessara þátta að geðþóttaákvörðun ræður mestu og þegar hún ræður en ekki rök eru menn á hálum ís og skreipt á skötunni, það er skreipt að stíga á skötuna því hún er hál. (GMJ: Það fer nú eftir …) Það er rétt, hv. þm. Grétar Mar Jónsson, það er ekki sama hver stígur á skötunni en sumir mundu ekki standa lengi á henni.

Á yfirstandandi fiskveiðiári leggja útgerðarfyrirtæki á Suðurlandi, því svæði sem borgar mest af öllum kjördæmum í veiðileyfagjald, fram rúmlega 1,1 milljarð kr. vegna svokallaðra potta og línumismununar, til að mynda varðandi línuveiðar dagróðrabáta sem beita línu í landi og mega landa 16% umfram þann afla sem reiknast til aflamarks í þorski, ýsu og steinbít. Þá valda rangir slægingarstuðlar því að umframveiði smábáta á fiskveiðiárinu 2005/2006 var 2.300 tonn af þorski og 1.400 tonn af ýsu. Allt vigtar þetta til bóta fyrir smábátana og ekki veitir þeim af, en það er annað mál.

Nú harðnar róðurinn og heldur lengist mál mitt eftir því sem rökin þéttast. Byggðakvótinn svokallaði hefur frá upphafi verið dæmdur til að mistakast, hann hefur hækkað úr 0,5% af hlutfalli þorsks í liðlega 2% af þorskafla. Það er gríðarleg hækkun. Það er bæði réttlátt og sanngjarnt að veiðigjald verði fellt niður því að það er engin sanngirni í því að sjávarútvegurinn sé skattlagður sérstaklega umfram aðrar greinar í landinu og það er forkastanlegt að ganga með þessum hætti að landsbyggðinni sem á mjög undir högg að sækja eins og ég gat áðan, virðulegi forseti, miðað við höfuðborgarsvæðið.

Það er nú svo þegar horft er til skerðingartíma í þorski að á sama tíma græðir ríkissjóður á því kerfi sem hann viðheldur og hefur miklu meira út úr því miðað við heildina að taka gjald af fisktegundum okkar en það sem hann setur á móti í svokölluðum mótvægisaðgerðum. Þetta er sýndarmennska. Það er ekki hægt að kalla það annað, raunveruleikinn er sýndarmennska. Kannski verður bætt um betur og ætla má að ekki séu öll kurl komin til grafar í að ríma við þann vanda sem blasir við landsbyggðinni og mun sterklega koma í ljós á vordögum þegar margir sitja uppi með að kvótinn er búinn og bátar leggjast að bryggju þar sem þeir eru bundnir í kengi. Þetta kerfi á ekki að vera eins og kengur, það á að vera lipurt, aðgengilegt og hvetjandi en er það ekki með skattheimtu á sjávarútveginn umfram aðrar greinar og önnur fyrirtæki í landinu, umfram annan rekstur sem vissulega er tengdur auðlindum Íslands.

Í frumvarpinu, þessari breytingu, er lagt til að horfið verði frá þeirri stefnu að innheimta veiðileyfagjald af útgerðum, öll ákvörðun um veiðigjöld verði felld úr gildi og álagningu og innheimtu þess verði hætt frá og með yfirstandandi fiskveiðiári. Þar sem veiðigjald hefur þegar verið lagt á er lagt til að Fiskistofa endurgreiði útgerðum það sem innheimt hefur verið fyrir fiskveiðiárið 2007/2008.

Með þessari gjaldtöku á sjávarútveginum og því háa hlutfalli sem útgerðarfyrirtæki á landsbyggðinni borga eru þau einfaldlega mun verr í stakk búin til að takast á við þann vanda sem við er að glíma í kjölfar skerðingar. Það er að þeim gengið og keyrt á þau fyrirtæki sem gætu brugðist við og haldið betur uppi vinnu þrátt fyrir skerðinguna. Fiskverkafólki, fólki úti á landsbyggðinni, eru engin grið sýnd. Þau grið eru annars staðar í þjóðfélaginu, þau eru þar sem ekki finnst slorlykt. Það er útgangspunkturinn. Það er sorglegt að hjá veiðimannaþjóð eins og Íslendingum skuli slorlykt stimpla hlutina ekki 2. flokks, hvað þá 1. flokks, og ekki heldur 3. flokks — nei, slorlyktin verður til þess að hlutirnir mæta afgangi. Þó er sjávarútvegurinn lykillinn að stöðu Íslands, því velferðarsamfélagi sem við byggjum, þeirri útrás sem íslensk fjármagnsfyrirtæki standa í og velta ekki milljörðum heldur hundruðum milljarða. Allt er þetta gert í skjóli íslensks sjávarútvegs, þar er útgangspunkturinn. Sjávarútvegurinn er grunnurinn og kjarninn, hann myndaði farveginn á sama hátt og hann myndaði farveginn fyrir gott skólakerfi, gott heilsugæslukerfi og aðra þætti sem við viljum hafa í samfélagi okkar.

Á sex ára tímabili, frá 2001, hefði veiðileyfagjald í Suðurkjördæmi einu, þar sem 30% eru greidd, verið 7 milljarðar kr. Það er mikil blóðtaka fyrir landsbyggðarsvæði þar sem tugir byggðarlaga eiga við vanda að glíma. Byggðarlög sem búa að því að hafa metnað og vilja til að byggja upp en ríkissjóður fer fremstur í flokki til að stemma stigu við því og er neikvæður gagnvart uppbyggingu á möguleikum fólks á landsbyggðinni. Ég hef ekki heyrt neinn benda á það blákalt að landsbyggðarfólk væri öðruvísi fólk, væri verra fólk en annað fólk á Íslandi. Það er illt að þurfa að vera að bera saman þéttbýli á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðina því að öll erum við Íslendingar og eigum og viljum taka tillit til þess. En stjórnvöld fara varlega í það og búa til sértækar reglur sem bitna á landsbyggðinni. Það er ástæða þess að ekki er hægt að fallast á það sjónarmið að veiðileyfagjaldið, auðlindaskatturinn, leggist á eina grein íslensks þjóðlífs.

Ef menn væru samstiga um að þessi skattheimta næði yfir allar greinar íslenskra auðlinda væri hægt að ræða það, það væri þá jafnræði og hægt að meta hlutina út frá því. En það er svo fjarri því. Það eru svo margir sem sitja eins og heybrækur og gera ekki neitt og segja ekki neitt gegn þessu óréttlæti. Það er það sem við búum við. Það getur vel verið að sár sé hver sannleikanum en ég tala hispurslaust eins og hæfir í íslensku veiðimannasamfélagi með snörpum myndrænum lýsingum eins og við þekkjum í sjávarplássunum hvort sem það er í lúkarnum á fiskibátnum eða í ræðum prestsins í kirkjunni. Þar er talað tæpitungulaust og það er vel.

Ég vil að lokum fara yfir eitt atriði í ræðu minni þó að ég hafi stytt verulega það mál sem ég ætlaði mér að flytja. Það varðar, virðulegi forseti, hið frjálsa fjárflæði. Hvað er frjálst fjárflæði? Ef ársreikningar fyrirtækja með 50–55% heildarkvóta eru skoðaðir og maður veltir því fyrir sér hvað er frjálst fjárflæði — það er veltufé frá rekstri að frádregnum fjárfestingum í fasteignum, skipum, tækjum, búnaði og öðru til að viðhalda rekstrinum. (Gripið fram í: Kvóta.) Já, já, það getur verið í kvóta, það getur verið í arði og hverju því sem stjórnendur fyrirtækja ákveða að nota. Afskriftir fasteigna, skipa og tækja stemma við fjárfestingar sama tímabils að meðaltali. Frjálst fjárflæði er raunverulega sú fjárhæð sem eigandi fyrirtækis getur ráðstafað til greiðslu lána, útgreiðslu arðs eða annarra fjárfestinga en í eigin rekstri, þ.e. nýfjárfestinga.

Hvað ætli þetta frjálsa fjárflæði sé mikill hluti af þorksígildiskílóverði? Það er 13 kr. Það má segja gróft að kílóverðið sé 150–200 kr. Afgangurinn er 13 kr. Það er allt og sumt og það er kannski þess vegna sem menn eru hættir að ráðast í sífellu á útgerðarmenn og atvinnurekendur í fiskvinnslu á landsbyggðinni og kalla þá sægreifa. Það orð er mjög ofnotað miðað við þá stórgreifa sem selja verðbréf í skjóli Íslands, það eru alvörugreifar. Hitt eru menn sem eru meira og minna þjóðnýttir og þess vegna fjaraði árásin á greinina út og nú flíka menn því lítið að þeir sem stunda sjávarútveg og koma nálægt slorlykt séu gróðapungar. Ríkissjóður tekur 25% af þeim 13 kr. sem eru í afgang í veiðileyfagjald, virðulegi forseti. Svo einfalt er málið. Það er ekki skrýtinn útreikningur, það er einfaldlega sú tala sem kemur út þegar veiðileyfagjaldið er reiknað út og síðan virði aflans sem um er að ræða.

Virðulegi forseti. Ég ítreka að það er bjargföst skoðun mín, og ég veit að það er líka skoðun margra hv. þingmanna, að í veiðileyfagjaldi felist rangindi gagnvart einni atvinnugrein á Íslandi umfram aðrar. Þess vegna er þessi breytingartillaga lögð fram.