135. löggjafarþing — 44. fundur,  13. des. 2007.

stjórn fiskveiða.

91. mál
[17:07]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég læt segja mér tveim sinnum þessar tölur sem hv. þingmaður bar fram úr ræðustól og vildi gjarnan sjá forsendur fyrir þeim áður en ég trúi þeim, að sjö ára veiðileyfagjald í Suðurkjördæmi sé 7 milljarðar, ef ég hef tekið rétt eftir. Ég held að það sé fjarri öllu lagi miðað við það sem ég tel mig þekkja til í þessum efnum.

Stærsti landsbyggðarskatturinn liggur í milljörðunum sem þeir sem hafa haft veiðiheimildirnar undir höndum fengu fyrir lítið sem ekkert á þeim árum sem verðið hefur stigið — ja, á sex árum hefur það fjórfaldast og liðlega það. Það er stærsti landsbyggðarskatturinn að þeir sem höfðu þessar veiðiheimildir undir höndum á þessum tíma hafi getað tekið út milljarðana sína sem liggja einhvers staðar annars staðar en í byggðarlögunum þar sem veiðiheimildirnar voru. Þessir peningar eru ekki í vösunum hjá því fólki sem hefur haft vinnu af því að sækja sjóinn eða vinna fiskinn. Þeir eru í vösunum hjá þeim mönnum sem áttu skipin og eiga milljarðana — og hvar eru þeir? Ég sé fyrir vestan að þeir eru allir að flytja suður, meira og minna. Þar er orðið fátt eftir um stönduga útgerðarmenn sem hafa auðgast á því að selja veiðiheimildir sínar á síðustu árum. Þeir flytja suður einn af öðrum og þeir sem eftir standa og reyna að bjarga sér verða að kaupa þessar veiðiheimildir á 4 þús. kr. kílóið í þorskveiðiheimildum.

Hvernig ætlar útgerðarmaður að gera út bát sinn á þeim forsendum? Það er stór landsbyggðarskattur, virðulegur forseti, það er alvörulandsbyggðarskatturinn sem er í gangi. 1,50 kr. er hlægilegt í samanburði við það.