135. löggjafarþing — 44. fundur,  13. des. 2007.

stjórn fiskveiða.

91. mál
[17:17]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta sjútv.- og landbn. (Grétar Mar Jónsson) (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Frjálslyndi flokkurinn hefði náttúrlega aldrei farið í ríkisstjórn upp á það að fá engu breytt í kvótakerfinu og fiskveiðistjórnarkerfinu. Það er dálítið dapurlegt að Samfylkingin skuli leggjast svo lágt að reyna að verja þetta. Þeir hafa ekki einu sinni farið hænufet í rétta átt í þessum málum og hafa algjörlega brugðist fólkinu sem kaus þá víða úti á landsbyggðinni út á það að þeir ætluðu að gera breytingar í sjávarútvegi og á fiskveiðistjórnarkerfinu. Þeir hafa brugðist fólkinu í þessu eins og þeir virðast ætla að gera í mörgum öðrum málum.

Af hverju var rækjan ekki tekin út úr kvóta? Af hverju er veiðiskyldan tekin af rækjukvótanum? Af hverju má þá ekki hafa rækjukvótann frjálsan fyrst þessir ágætu menn sem hafa kvótann í dag vilja ekki nýta hann og veiða? Af hverju mega þá ekki aðrir gera það sem kannski treysta sér til þess?

Nei, það skal frekar haft kvótabundið þó að þeir þurfi ekki einu sinni að veiða helminginn af útgefnum kvóta, hann skal frekar látinn ónýttur í sjónum. Það er ekkert slæm veiði á rækju í dag, það var ágætisveiði á rækju í sumar. (Gripið fram í: Ertu að tala um rækjuna?) Ég er að tala um rækjuna, já, það var ágætisveiði á rækju í sumar en það er lágt verð á henni og hún þolir það ekki, þeir sem ætla að gera út á rækju þola ekki að þurfa að borga einhverjar krónur fyrir að fá að veiða hana.

Þetta er eitt af öðru og ég skora á samfylkingarmenn að bretta nú upp ermar og reyna að gera eitthvað. Það væri strax skárra þó að það væru bara einhver hænufet.