135. löggjafarþing — 44. fundur,  13. des. 2007.

stjórn fiskveiða.

91. mál
[17:21]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vildi blanda mér í umræðu um þetta mál sem hér er til umfjöllunar og er vissulega skref í þá átt að bregðast við þeim mikla niðurskurði sem er nú staðreynd í þorskveiðum okkar Íslendinga. Er ekkert nema gott um það að segja. Það má alltaf velta fyrir sér hvort nógu langt sé gengið og í rauninni var það ekki með þessu frumvarpi. Meiri hlutinn hefur gert tillögur um breytingar á þessu máli sem ég tel til bóta, þ.e. að veiðigjaldið miðist við 7,8% í stað 9,5%. Það finnst mér vera skref í rétta átt.

Ég er þeirrar skoðunar að jafnvel hefði þurft að ganga lengra og þess vegna munum við framsóknarmenn styðja þá tillögu sem flutt er af hv. þingmanni Vinstri grænna, Atla Gíslasyni, um að gjaldið verði aflagt í þrjú ár og þá verði endurskoðað með hvaða hætti skuli tekið á málum. En ég vil taka það fram hér að ég treysti mér ekki til að styðja þá tillögu sem flutt er af hv. þm. Árna Johnsen sem gengur út á að afnema algjörlega veiðigjald. Þó að ég sé í raun enginn aðdáandi þess fyrirkomulags sem tekið var upp árið 2001 með svokölluðu samkomulagi finnst mér að ef fara ætti út í slíka aðgerð, sem væri vissulega stórpólitísk, þyrfti að vera meiri aðdragandi að því en sá að hér komi einn hv. þingmaður stjórnarflokks og leggi það til án þess að einhver meiri grundvöllur sé á bak við það. Eftir því sem ég best veit styður Sjálfstæðisflokkurinn ekki þá tillögu, en ég er mjög sammála mörgu af því sem kom fram í máli hv. þingmanns sem kemur frá sjávarbyggð og gerir sér fulla grein fyrir hvers konar landsbyggðarskatt hér um ræðir. Þetta svokallaða samkomulag sem gert var árið 2001 átti að fela það í sér að samstaða næðist í þjóðfélaginu um fiskveiðistjórnarkerfið út á þetta veiðigjald. Eins og mál eru í dag er enginn friður um það kerfi.

Meira að segja kemur hér stjórnarþingmaður næstur á undan mér, hv. þm. Karl V. Matthíasson, og er á móti fiskveiðistjórnarkerfinu, ég get ekki skilið það öðruvísi. (KVM: … breyta miklu.) (Gripið fram í.) Er það … ja, bjartsýnn er kannski bara allt of fallegt orð um það sem mér er efst í huga. Honum dettur í hug að þessi ákvæði sem eru í stjórnarsáttmála, annars vegar um að tryggja stöðugleika í sjávarútvegi og hins vegar um að reynsla af fiskveiðistjórnarkerfinu verði athuguð með tilliti til byggðanna, séu eitthvað sem breyti fiskveiðistjórnarkerfinu. Það er bara alls ekki þannig og ef hv. þingmaður hefur gert sér einhverjar vonir um það held ég að það sé ágætt fyrir hann að fara að búa sig undir að verða fyrir vonbrigðum.

Ég veit að það er lítill tími sem við höfum hér til umræðu um þetta mál, sem vissulega er þó stórt, og alltaf þegar við ræðum um sjávarútvegsmálin er mikilvægt að leggja eitthvað inn í þá umræðu að mínu mati. Ég hefði eiginlega viljað segja í lokin að þessi aðgerð stjórnvalda er viðleitni í þá átt að minnka það högg sem sjávarbyggðirnar verða fyrir. Það er vissulega stórt, en ef hv. þingmenn vilja halda því fram að þeir erfiðleikar sem eru á landsbyggðinni séu allir út af fiskveiðistjórnarkerfinu tel ég að þeir séu á villigötum. Við erum að tala um gríðarlega fækkun starfa, hún skiptir tugum prósenta á örfáum árum, og auðvitað kemur þetta einhvers staðar niður. Ef við ætlum að fara út í einhvers konar sósíalískt kerfi þar sem þessum heimildum væri úthlutað til framtíðar á ákveðna staði en ekki mætti vera neinn hreyfanleiki í því held ég að við horfum, því miður, ekki á sjávarútveg til framtíðar sem á sér rekstrargrundvöll. Það er bara þannig með þennan atvinnuveg að hann þarf að eiga sér rekstrargrundvöll eins og allar aðrar atvinnugreinar til að við getum haldið áfram uppi þeim lífskjörum sem við höfum náð í þessu landi.

Ég talaði í 5 mínútur og 14 sekúndur, hv. formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins.