135. löggjafarþing — 44. fundur,  13. des. 2007.

stjórn fiskveiða.

91. mál
[17:27]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ákaflega sérstætt og á sér ekki fordæmi eða hliðstæðu í íslensku þjóðfélagi að fáeinum aðilum hafi verið veitt heimild til að skattleggja aðra eins og gert er með fiskveiðilöggjöfinni. Það er svona álíka og var áður fyrr í Englandi þegar fógetinn í Nottingham hafði fulla og óskoraða heimild til að skattleggja þá sem fóru um umdæmi hans.

Ég tók eftir því að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir sagði að það væri engin sátt um fiskveiðistjórnarkerfið og mælti það í því samhengi sem rök fyrir því að draga úr veiðigjaldi eða hugsanlega afleggja það alveg. Ég held að það sé heilmikið til í því að ekki sé mikil sátt um núverandi fiskveiðistjórnarkerfi. Mælingar Gallups hafa lengi sýnt að meiri hluti þjóðarinnar er óánægður með það og nýjasta mælingin sem kom fyrir nokkrum mánuðum sýndi að 72% þjóðarinnar eru óánægð með fiskveiðistjórnarkerfið en aðeins 15% ánægð með það.

Það væri fróðlegt að fá að vita hjá hv. þingmanni hvað hann leggur þá til í breytingum á kerfinu til að a.m.k. meiri hluti þjóðarinnar styðji það. Ef við gefum okkur að menn gangi til baka með veiðigjaldið og leggi það niður, hvaða breytingar þarf þá að gera á fiskveiðistjórnarkerfinu þannig að þjóðin sætti sig við það?