135. löggjafarþing — 44. fundur,  13. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[17:48]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er kannski nærtækt að byrja á því að spyrja hvort hæstv. forseti hafi hugsað sér að ætlast til þess að framsögumaður minni hluta hefji að mæla fyrir nefndaráliti sem ekki er búið að dreifa. Er ekki eðlilegt og samkvæmt þinghefðum að gera frekar stutt hlé á þessari umræðu, eða eftir atvikum fresta fundinum stundarkorn, ef það er aðeins spurning um 10 mínútur eða svo sem þess er að bíða að skjalavinnslan skili af sér nefndarálitinu? Eða er þetta sá svipur á þingstörfunum sem hæstv. forseta finnst gaman að hafa á hlutunum?

Við mátum það svo þegar meiri hlutinn tók málið út í gærkvöldi og fundur stóð inn í nóttina að okkur mundi ekki veita af bróðurparti dagsins til að ganga frá breytingartillögum og nefndaráliti. Breytingartillögurnar voru efnislega tilbúnar upp úr hádegi en það var nokkuð flókið mál að setja þær upp og það tók skjalavinnsluna talsverðan tíma. Nefndarálitið er mikið að vöxtum og eðlilega tekur líka tíma að ganga frá því, fjölfalda það með fylgiskjölum og hafa það tilbúið til dreifingar.

Hér hófst fundur kl. 10.30 í morgun og stóð atkvæðagreiðsla um fjárlög í á þriðja tíma. Síðan hafa verið meira og minna linnulausar umræður eða hlé vegna þingflokksfunda þannig að samhliða þessum önnum hafa menn reynt að hamast við að koma þessum skjölum saman. Það er veruleikinn, það er staðreyndin hvað sem menn halda. En auðvitað verður forseti að eiga þetta við sig og ef honum finnst þetta einmitt sérstaklega við hæfi þegar til umfjöllunar er frumvarp sem á að hafa þann megintilgang að koma betri svip á þinghaldið, vanda vinnubrögð og hafa þessa hluti alla saman í föstum og fyrirsjáanlegum skorðum er þetta upphaf á hinum nýju tímum sem forseti kýs að hafa á hlutunum.

En svo mikið hefur reynslan kennt mér að það þykist ég geta fullyrt að ekki er þetta í samræmi við góðar þingvenjur. Það hefur aldrei þótt góð latína yfir höfuð að hefja umræður áður en þingskjöl lægju fyrir og litið á það sem hálfgerðan neyðarkost, einstöku sinnum gert ef samkomulag er um það og ef þeir sem í hlut eiga kvarta ekki undan því og láta sig hafa það. En það er afar sjaldgæft held ég að ætlast sé til þess að minni hluti í stóru og viðamiklu máli sem hefur sérstöðu fram að færa eigi að mæla fyrir því í nefndaráliti án þess að búið sé að dreifa því. Það þarf ekkert að rökstyðja hvers vegna. Sem betur fer hafa slík vinnubrögð ekki almennt verið tíðkuð en kannski eru það hinir nýju tímar sem forseti hyggst innleiða hér.