135. löggjafarþing — 44. fundur,  13. des. 2007.

stjórn fiskveiða.

91. mál
[17:53]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta sjútv.- og landbn. (Grétar Mar Jónsson) (Fl):

Herra forseti. Þetta er að verða skondið þegar í tvígang er frestað umræðu í þessu máli en það verður kannski að hafa sinn gang. Við erum að ræða frumvarp um veiðileyfagjald og að fella niður veiðiskyldu á rækju. Ýmislegt má um þetta segja og svo fiskveiðistjórnarkerfið og þær ógöngur sem við erum komnir í með það.

Hv. þm. Árni Johnsen talaði um byggðakvótann, sagði að hann væri böl en það er öðru nær, hann er hænufet í þá átt að bjarga sveitarfélögum eða sjávarþorpum sem hafa misst allan kvóta sinn í burtu. Auðvitað hefur byggðakvótinn þar af leiðandi, þó að lítill sé, aðstoðað og hjálpað aðeins til og eins er með línuívilnunina, þ.e. þar sem er handbeitt í landi fá menn ívilnun í þorski og ýsu upp á 16%. Það hefur auðvitað hjálpað víða til að fá þetta og orðið til atvinnuuppbyggingar eða haldið atvinnu á staðnum, bæði beitningu og auðvitað fiskvinnslu.

Ég minntist á það í fyrri ræðu minni að Samfylkingin hefur brugðist manni í þessu máli eins og mörgum öðrum. Ég fékk ekki skýr svör við því hjá hv. þm. Karli V. Matthíassyni hvað þeir ætluðu að gera annað en að skipa einhverja nefnd. Auðvitað er sorglegt að við verðum kannski að bíða í tvö ár eftir því að þessi nefnd skili af sér einhverju áliti um að staðan í sjávarplássunum sé slæm.

Er stöðugleiki í sjávarútvegi til staðar? Það er eitt af því sem stóð í stjórnarsáttmálanum. Ég get ekki séð að það sé neinn stöðugleiki með þessu fiskveiðistjórnarkerfi nema síður sé. Menn spurðu: Hvaða leiðir eru færar? Hvað er hægt að gera til að komast út úr þessu? Það er hægt að hafa uppboð á veiðiheimildum, það þarf ekki að afhenda þær öllum ókeypis. Margir gera út sem eiga lítinn sem engan kvóta, kvótalausar útgerðir og þær borga leigu í þorski upp á 230–240 kr. fyrir kílóið. Þær eru að borga leigu. Ef þessar útgerðir fengju að leigja kvóta á 100 kr. væru þær bara í mjög góðum málum. Auðvitað er spurning hvort menn eigi ekki að stíga einhver skref í því að taka einhverja potta til að gefa þessum aðilum tækifæri til að fá að vinna og vera með í þessari atvinnugrein.

Skoðanakönnun sem var gerð í vor sýndi það og sannaði að það eru ekki bara 72% heldur sennilega 85% sem eru á móti fiskveiðistjórnarkerfinu sem er náttúrlega út af því að fólk sem þekkir til á landsbyggðinni eða er af landsbyggðinni veit hver staðan er. Það hefur komið fram að þessar sjávarbyggðir voru byggðar upp út af fiskveiðum, nálægð við fiskimið. Þegar grunninum er undan því kippt hrynur allt mannlífið og þetta veldur ómældum vandamálum í þessum sveitarfélögum, bæjarfélögunum, þessum sjávarþorpum. Auðvitað mun þetta leiða af sér ýmiss konar aðra ógæfu. Það hefur t.d. aldrei eða sáralítið verið talað um hvaða áhrif þetta hefur á félagslegan þátt þess fólks sem verður fyrir þeirri ógæfu að fá ekki vinnu og hrökklast í burtu úr verðlausum eignum af því að einhverjum fáum var afhentur allur kvótinn. Það er auðvitað hægt að stíga ákveðin hænufet í rétta átt eins og með því að fækka kvótabundnum tegundum. Þetta er það sem við í Frjálslynda flokknum höfum bent á. Við höfum líka bent á að það má byrja á að opna þetta kerfi neðan frá með því að hafa frjálsar handfæraveiðar í fimm mánuði á ári fyrir menn með óframseljanlegar veiðiheimildir, bara veiða með tvær rúllur hver og á allt að 30 tonna bátum. Það er allt hægt að gera en spurningin er: Hafa menn vilja, og viljum við gera það? Ég vona að við alþingismenn verðum ekki kallaðir einhverjar heybrækur sem þora ekki að takast á við þessi mál.