135. löggjafarþing — 44. fundur,  13. des. 2007.

stjórn fiskveiða.

91. mál
[18:21]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þekki mætavel þetta lagafrumvarp sem hv. þm. Jón Bjarnason dró hér fram í umræðuna um brottfall laganna um stjórn fiskveiða. Sjálfur flutti ég efnislega samhljóða frumvarp fyrir áratug eða liðlega svo þannig að ég kannast mætavel við það mál og veit að þeir sem sömdu og flytja frumvarpið nú hafa örugglega nýtt hið eldra frumvarp sér til gagns.

Ég þekki líka þá stefnu sem flokkurinn hefur borið fram fyrir kjósendur. Ég var út af fyrir sig ekki að fjalla um hana, það sem ég gat um í ræðu minni var að Vinstri grænir væru með tillöguflutningi sínum núna að opinbera það fyrir kjósendum að þeir meintu ekkert með þeirri stefnu sem þeir hefðu borið fram. (ÞBack: Ha?) Það væri einfaldlega fyrirsláttur til að villa um fyrir kjósendum.

Það kemur í ljós núna á ögurstundu þegar tekist er á um veiðigjaldið að eina tillaga Vinstri grænna í því máli er að ganga lengra í átt til stórútgerðarmanna, gera þeim meira til góða en sjálf ríkisstjórnin er tilbúin til að gera. Það er framlag Vinstri grænna til umræðunnar um stjórn fiskveiða eins og kemur fram í því nefndaráliti sem rætt var fyrr í þessari umræðu.

Meira að segja 1,45 kr. í endurgjald fyrir hvert kíló sem má veiða er of mikið fyrir Vinstri græna, þeim finnst of þungbær kvöð á útvegsmenn að borga 1,45 kr. þegar þeir geta á sama tíma leigt þessar veiðiheimildir fyrir 233 kr. Þess vegna segi ég: Þetta er ekkert annað en það að Vinstri grænir eru að biðla til Sjálfstæðisflokksins, þeir eru að sýna honum og LÍÚ að þeir vilji ganga lengra í að verja (Forseti hringir.) hagsmuni stórútgerðarmanna en sjálf Samfylkingin. (Gripið fram í: … vera í Framsóknarflokknum.)