135. löggjafarþing — 44. fundur,  13. des. 2007.

stjórn fiskveiða.

91. mál
[18:27]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek alveg undir þau orð hv. þingmanns að sjávarbyggðirnar vítt og breitt um landið standa frammi fyrir gríðarlegum vanda og við stöndum frammi fyrir gríðarlegum breytingum á íslenskum sjávarútvegi ef fram fer sem horfir og stefna ríkisstjórnarinnar, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, nær fram að ganga með samþjöppun á fiskveiðiheimildum og miklum auknum erfiðleikum hjá mörgum sjávarbyggðum.

Hinu er ekki að leyna að ég held að við verðum að viðurkenna að það gjald sem hér er verið að tala um og er hluti af núverandi fiskveiðistjórnarkerfi kemur líka illa við ákveðin fyrirtæki úti í hinum dreifðu byggðum akkúrat nú. (Gripið fram í: … útgerðir.) Ég held að — við skulum ekki heldur tala niður til þeirra fyrirtækja, þeirra útgerða sem þetta snertir. Við erum ekki að mæla með að þetta sé sú lausn sem á að nota en hérna er verið að tala um afmarkað mál í erfiðri stöðu.

Ég bendi á þær tillögur sem við höfum flutt um að tengja fiskveiðiheimildir byggðunum þannig að íbúarnir, útgerðaraðilarnir, sjómennirnir eigi þar sinn sjálfstæða rétt en gangi ekki kaupum og sölum úr byggðunum (Gripið fram í.) eins og nú gerist. Við höfum einmitt þess vegna flutt tillögur um að allt kerfið verði tekið til endurskoðunar vegna þess að allir þættir þess, öll markmið fiskveiðistjórnarkerfisins, að vernda fiskstofna, að treysta atvinnu og efla byggð í landinu, hafa brugðist, mistekist, kerfið er fullkomlega gjaldþrota og þess vegna verðum við að (Forseti hringir.) endurskoða það og snúa á aðra braut eins og við höfum lagt til í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, frú forseti.