135. löggjafarþing — 44. fundur,  13. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[20:33]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það vakti athygli mína í tæplega tveggja tíma ræðu hv. þingmanns að varla er hægt að segja að hann hafi vikið orði að frumvarpinu sem hér er til meðferðar. Ræðan var full af fullyrðingum, alhæfingum og þess háttar hlutum. Á köflum var það jafnvel þannig að hv. þingmaður þurfti að biðjast afsökunar á sjálfum sér og málflutningi sínum í ræðunni.

Ég átti von á því eftir þá miklu umræðu sem farið hafði fram um vandaðan undirbúning og að miklu skipti að koma sjónarmiðum að, að inn í umræðuna kæmu þættir sem skiptu máli, þættir sem boðuðu eitthvað nýtt í umræðunni en ekkert slíkt var þar að finna.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að eftir að hafa hlýtt á þessa ræðu skil ég vel að hv. þingmenn hafi viljað flýja með hana inn í kvöldið, inn í nóttina, inn í myrkrið (Forseti hringir.) því að ræðan var þess eðlis að full ástæða var til að teygja hana inn í þá tímasetningu.