135. löggjafarþing — 44. fundur,  13. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[20:37]
Hlusta

Frsm. minni hluta allshn. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég velti fyrir mér hvernig staðan hefði verið á síðasta þingi að lögfestu þessu frumvarpi. Hvar hefðu hv. þm. Lúðvík Bergvinsson og fleiri hv. þingmenn Samfylkingarinnar staðið í deilunni um fjölmiðlafrumvarpið, Ríkisútvarpið, vatnalögin og margt fleira?

Ég tala nú ekki um ef hv. þingmaður hefði staðið frammi fyrir jafn óbilgjörnum meiri hluta og hér starfar og sá óbilgjarni meiri hluti hefði ákveðið að lengja ekki ræðutímann í þessu máli. Hvernig hefðu varnaglarnir reynst? Við sætum væntanlega uppi með vatnalög, fjölmiðlafrumvarp og Ríkisútvarpið samkvæmt vilja fyrrverandi ríkisstjórnar.