135. löggjafarþing — 44. fundur,  13. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[20:48]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Mig langar í upphafi að fara aðeins yfir aðdragandann að því máli sem við erum að fjalla um, þ.e. breytingar á þingsköpum. Það er ljóst að þetta mál rekur ekki á fjörur okkar með neinu hraði, það hafði verið unnið mjög mikið í því á fyrri tíð. Bæði var það rætt á síðasta kjörtímabili og þær ræðureglur sem við höfum aðallega stuðst við í vinnslu málsins urðu til fyrir nokkrum árum eftir starf sem nokkrir þingmenn á þeim tíma höfðu unnið.

Ég tel að þetta mál sé vel unnið og vil sérstaklega koma því á framfæri í ræðu minni að það er skoðun mín að hæstv. forseti Alþingis, Sturla Böðvarsson, hafi staðið vel að því að ræða við aðila máls í aðdraganda þess að þetta frumvarp var flutt. Ég vil því alls ekki taka undir þá gagnrýni sem hefur komið á störf hæstv. forseta.

Frumvarpið er að vissu leyti málamiðlun milli stjórnmálaflokkanna. Enginn flokkanna telur að frumvarpið sé algerlega eins og hann hefði viljað en það er afrakstur málamiðlunar. Þingflokksformenn hafa komið að samningu frumvarpsins. Mikið samráð var haft við þingflokksformenn og sú er hér stendur er ein þeirra og því tel ég mig þekkja það frekar vel. Frumvarpið var líka rætt í forsætisnefnd þingsins og það var einnig rætt við formenn stjórnmálaflokkanna þannig að það hefur verið rætt talsvert lengi.

Hvað varðar þá gagnrýni sem komið hefur fram vil ég aðeins fá að grípa niður, virðulegi forseti, í nefndarálit minni hlutans. Þar kemur fram að samráð við undirbúning að gerð frumvarpsins hafi verið í lágmarki og það hafi aðeins verið rætt í þröngum hópi og nánast haldið frá þingmönnum þar til það lá fyrir í nokkuð endanlegri mynd. Ég er ekki sammála því sem minni hlutinn heldur fram af því að ljóst er að margir þingmenn komu að málinu. Ég vil taka það sérstaklega fram og tek sem dæmi að a.m.k. við í þingflokki framsóknarmanna fjölluðum um málið á nokkrum fundum. Við dreifðum drögum að frumvarpinu þar, sýndum þingmönnum okkar frumvarpið og innkölluðum það síðan. Því er alveg ljóst að þingmenn Framsóknarflokksins gátu kynnt sér málið ágætlega og tekið var tillit til óska okkar flokks. Það var ýmislegt sem við vildum sjá með öðrum hætti frá upphaflegri mynd þess, frá upphaflegu hugmyndunum og tekið var tillit til hluta þeirra athugasemda sem við bárum fram. Við teljum þess vegna að við eigum talsvert mikið í þessu máli þótt að sjálfsögðu fái ekki allir flokkar fram sínar ýtrustu kröfur í svona vinnu. (Gripið fram í: Sumir ekkert.) Og sumir ekkert, kallar hér fram í fulltrúi Vinstri grænna. Málinu var breytt á lokastigi, þegar þingflokksformenn fjölluðu um það á lokastigi var málinu breytt, m.a. til að koma til móts við sjónarmið vinstri grænna. Það dugði ekki til til að fá vinstri græna með í hópinn frekar en þær breytingar sem gerðar voru síðar í allsherjarnefnd til að koma þar líka til móts við sjónarmið þeirra, þær dugðu ekki til. Ég get ekki tekið undir að þingflokkur Vinstri grænna hafi ekki haft nein áhrif á þetta mál, alls ekki, ég held að hann hafi haft áhrif á málið.

Það kemur líka fram og hefur komið fram í tali einstakra þingmanna að hér sé brotið í blað varðandi einhverja hefð og varðandi söguna. Hér sé alveg nýtt sögulegt fyrirbæri á ferðinni af því að ekki séu allir þingflokkar á málinu, þ.e. einn þingflokkur er ekki á málinu. Það er ekki svo. Hér hafa verið gerðar breytingar á þingsköpum án þess að samkomulag eða sátt væri um þær breytingar. Ég nefni breytingar á þingsköpum 1936. Það var aldeilis ekki sátt um þær breytingar. Mér skilst að atkvæðagreiðslan hafi farið 17:9 í efri deild og 9:5 í neðri deild þannig að hér ekki brotið í blað varðandi hefðir að þessu leyti.

Tilgangur frumvarpsins er að skapa snarpari umræðugrundvöll en við höfum í dag. Við viljum gjarnan sjá styttri ræður þar sem þingmenn koma sjónarmiðum sínum á framfæri og að hér eigi sér stað frekar rökræður en einræður. Við viljum líka gera vinnustað okkar fjölskylduvænni. Það er mjög óheppilegt að vita ekki nokkurn veginn hvenær þingstörfum lýkur dags daglega og það er líka óheppilegt að þurfa að vinna hér langt fram á kvöld og á nóttinni. Reyndar hefur slíkum fundum fækkað mjög mikið hin seinni ár.

Við viljum líka að þinghaldið sé líkara því sem gengur og gerist á Norðurlöndunum. Þar er ræðutími takmarkaður. Kollegar okkar á öðrum Norðurlöndum skilja ekkert í fyrirkomulaginu hér þegar maður segir þeim frá því. Ég var rétt áðan hinum megin við Austurvöll að ræða við nokkra þingmenn frá Norðurlöndum sem eru í forsætisnefnd Norðurlandaráðs og sagði þeim frá þessari umræðu. Þeir furðuðu sig á að við gætum staðið í 2. umr. endalaust, eins lengi og stætt er, til að ræða mál.

Ég held, virðulegi forseti, að þegar við lítum til baka, þegar þetta frumvarp verður orðið að lögum, munum við jafnvel skellihlæja að því fyrirkomulagi sem við höfum í dag. Ég held að við munum hlæja að þessu fyrirkomulagi eftir nokkur ár, þá verði orðið svo sjálfsagt að vinna eftir nýja fyrirkomulaginu að okkur finnist gamli tíminn fráleitur í þessu sambandi. Tíðarandinn er verulega breyttur og við munum örugglega öll sjá það betur síðar, vona ég.

Það kemur fram í frumvarpinu, í athugasemdum við 16. gr., að við viljum að umræðan sé markvissari og fjörugri. Við viljum draga úr löngum ræðum, stytta umræðutímann, en við ætlum hvorki að setja takmarkanir á málfrelsi þingmanna né hindra það að hver og einn geti gert grein fyrir sjónarmiðum sínum á eðlilegan hátt við meðferð mála. Miðað við breytingartillögurnar verður þetta þannig að við 2. umr. getum við talað í 20 mínútur í fyrstu ræðu, 10 mínútur í næstu og svo 5 mínútur eftir það og farið upp eins oft og við viljum, það eru engin höft á því. Það er alveg ljóst, virðulegi forseti, að ekki er verið að taka málfrelsi af neinum.

Ég vil líka benda á að mörg dæmi eru um að þingmenn haldi ræður í klukkutíma og það verður líka hægt í nýja fyrirkomulaginu en í dag er það þannig að hægt er að standa hér í klukkutíma í einni lotu eða 10 tíma eða eins lengi og stætt er. Í nýja fyrirkomulaginu tekur það mann átta ræður að komast upp í klukkutímann í annarri meðferð mála hér, þ.e. fyrst í 20 mínútur, svo í 10 mínútur og síðan sex sinnum í 5 mínútur, samtals 60 mínútur. Það tekur tvær ræður að komast upp í hálftímann. Það er spá mín að flestir muni taka eina ræðu í 20 mínútur, einhverjir taki svo 10 mínútur í viðbót en líklega muni það heyra til undantekninga og ekki verði mikið um það að mínu mati, virðulegi forseti, að þingmenn komi mjög oft upp í 5 mínútna ræður. Ég held að það verði ekki þannig. Það er vegna þess að ég held að almenningur muni furða sig á því ef þingmenn koma kannski upp níu sinnum í umræðu, ef þeir eru búnir að tala í klukkutíma samtals, þ.e. í 20 mínútur, 10 mínútur og sex sinnum í 5 mínútur, og fara svo upp í níundu ræðuna og hafa þá talað í 65 mínútur samtals. Ræðufjöldinn eykst auðvitað í hvert sinn sem menn munu koma upp í ræðustól og almenningur mun furða sig á því og segja: Hvernig í ósköpunum stendur á því að þingmenn geta ekki komið rökum sínum til skila nema með 12 ræðum, 15 ræðum, 17 ræðum o.s.frv. ef menn reyna að stunda málþóf. Ég held að þetta nýja fyrirkomulag geti verið til verulegra bóta.

Ég hefði getað sagt reynslusögur af núverandi fyrirkomulagi en ég ætla ekki að fara með margar slíkar. Ég get þó sagt að mér er mjög minnisstætt þegar við fjölluðum um eitt mál fyrir nokkrum árum, þá var næturfundur og sami þingmaðurinn var í pontunni alla nóttina og engir voru á staðnum nema forseti og ritari, viðkomandi ráðherra í málaflokknum og sú er hér stendur. Verið var að fjalla um mál sem var umdeilt í samfélaginu en ég er algerlega sannfærð um það, virðulegi forseti, að ræða þessa hv. þingmanns, sem sat hér á þeim tíma, og stóð yfir í marga klukkutíma var ekki til að bæta ásýnd þingsins, alls ekki. Líklega hafa fáir heyrt þessa ræðu en hún tafði bara störf hér. Þetta var ekki gagnlegt og ég tel að við eigum ekki að opna fyrir það að við getum viðhaldið slíku fyrirkomulagi. Þetta var ekki skemmtileg reynsla og sú er hér stendur var eiginlega þvinguð til að vera hérna þar sem ég var fulltrúi nefndar sem þetta mál tilheyrði og flutningsmaður að nefndaráliti og hægt var að gera kröfu um að maður væri hér alla nóttina.

Varðandi málsmeðferðina í allsherjarnefnd vil ég taka fram að hún var að mínu mati vönduð. Við héldum að mig minnir sex eða sjö fundi, fórum vel yfir málið og áttum góðar umræður meðal þingmannanna um þau efnisatriði sem hér eru til umfjöllunar og reyndar fleiri atriði sem eru ekki í þessu frumvarpi. Hv. formaður allsherjarnefndar, Birgir Ármannsson, stýrði nefndinni á mjög lipran hátt að mínu mati og ég er ánægð með málsmeðferðina sem málið fékk og tel ekki hægt að gagnrýna hana.

Ég ætla ekki að fara mikið yfir breytingarnar í þessari ræðu af því að það hefur verið gert hér á eðlilegan hátt, formaður allsherjarnefndar, Birgir Ármannsson, gerði það. Það sem mér finnst standa upp úr eru breytingarnar á ræðutímanum, það eru langstærstu breytingarnar, og ég hlakka mjög til þess, verði frumvarpið að lögum, að við getum farið að vinna eftir nýja fyrirkomulaginu.

Það var svolítið rætt hvort við ættum að stytta 1. umr. enn frekar frá því sem nú stendur til. Rökin voru þau að þannig væri þetta í Danmörku og að mig minnir í Finnlandi. Þetta yrði þá stutt snörp umræða á almennum nótum um frumvörp og þingsályktunartillögur. Síðan færi málið til nefndar og 2. umr. yrði svo meginumræðan. Rökin voru líka þau að þannig mætti ná meiri afköstum í þinginu og þingmannamál næðu frekar inn í nefndir og hraðar inn í nefndir. Nú er það þannig að stjórnarfrumvörp taka mestallan tímann og þingmannamál komast seint og illa til nefndar. Ég vildi ekki taka undir þessi sjónarmið á þessu stigi, ég útiloka samt ekki að við getum skoðað það í framtíðinni, og það er vegna þess að ég tel að 1. umr. sé mikilvæg. Það er tækifærið sem þingmenn hafa, sérstaklega þingmenn í stjórnarandstöðu, til að ræða við ráðherrana sem flytja stjórnarfrumvörpin sem eru fyrirferðarmestu frumvörpin hér. Þá er hægt að ræða við ráðherrana, yfirheyra þá um einstakar greinar og það er vettvangurinn þar sem ráðherrann er hér við umfjöllun mála. Við 2. umr. er þingið með forræði á málinu á sinni hendi og þá fer meginumræðan fram. Ég taldi að ekki ætti að stytta 1. umr. frá því sem nú er af því að það er mikilvægt, sérstaklega fyrir stjórnarandstöðu, að geta rætt beint við ráðherra um viðkomandi frumvarp. Það eru líka rök að við erum fámenn þjóð og mjög æskilegt er að 1. umr. sé nokkuð sýnileg þannig að hún nái eyrum samfélagsins en málið fari ekki mjög hratt inn í lokaðar nefndir í þinginu. Ég féllst ekki á þessi sjónarmið sem voru frekar sterk í nefndinni og það kom mér svolítið á óvart hve margir í nefndinni voru á því að skoða þetta en ég vildi ekki gera það að þessu sinni.

Ég vil taka það fram, virðulegi forseti, að það er bráðabirgðaákvæði í þessu máli, þ.e. endurskoða á málið eftir þrjú ár. Ég tel það mjög heppilegt ákvæði af því að við erum að gera talsverðar breytingar og eðlilegt er að skoða málin aftur þegar við sjáum hvernig þetta fyrirkomulag virkar. Ég tel eðlilegt að þingmenn hafi í huga að við erum að ákveða fyrir fram að endurskoða fyrirkomulag mála, ég legg mikla áherslu á það. Þetta er fyrsta skrefið á langri leið sem við erum að taka núna, þetta er áfangi.

Það er talsverður þungi á bak við þær hugmyndir að breyta nefndastarfi verulega í þinginu og ég tel alveg ljóst að það hljóti að verða næstu skref sem við tökum eftir að þessi eru stigin. Þá endurskoðum við nefndastarfið, sköpum meira rými fyrir það starf, gerum það virkara og komum því þannig fyrir að mál fái dýpri umræðu í nefndum en nú er. Og ég get bent á það, virðulegi forseti, að í sumum þjóðþingum eru þingmenn bara í einni nefnd, ekki mörgum. Það er mjög þungt að vera í mörgum nefndum.

Við höfum verið sökuð um óðagotsmeðferð í allsherjarnefnd og ég vil mótmæla því. Fram kemur í áliti minni hlutans að í málsmeðferð allri ráði hér e.t.v. lýðræðisþreyta framkvæmdarvaldsins og stjórnsýslunnar gagnvart Alþingi. Ég mundi frekar vilja orða það þannig, virðulegi forseti, að það gæti þreytu undir maraþonræðum í þinginu og þess vegna viljum við breyta fyrirkomulaginu til nútímahátta. Að mínu mati hefði verið æskilegast að allir flokkar stæðu að þessu máli. Þeir eru það því miður ekki. Vinstri grænir hafa einir flokka kosið að vera ekki með og talað um að reyna ætti lengur að semja og ná málamiðlun en ég tel það fullreynt. Það hafa gefist mörg tækifæri til að semja um málið. Þau hafa ekki verið nýtt að mínu mati, þ.e. ef fullur vilji hefði verið til að ná saman hefðum við náð saman. Það vantar viljann, því miður. Við höfum teygt okkur í átt til vinstri grænna og málið hefur að mínu mati haft gott af því og allt gott um það að segja. Ég sé ekki stóran mun á 15 mínútum og 20 mínútum og 5 og 10 í fyrstu og annarri umferð í 2. umr. og tel líka ágætt að sett hafa verið inn ákvæði um að hver þingflokkur geti beðið um tvöfalda umræðu tvisvar sinnum á þingvetri. Ég tel að búið sé að teygja sig í átt til Vinstri grænna og að gott hafi verið að gera það en það sé óheppilegt að þeir vilji ekki standa að málinu í heild með okkur. Viljinn hefur ekki verið nægur og þess vegna stöndum við í þessum sporum en eigi að síður er ég sannfærð um að við erum að taka hér mjög heppilegt skref og það verði gaman að vinna í nýju fyrirkomulagi.