135. löggjafarþing — 44. fundur,  13. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[21:13]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það vakti athygli mína að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir sagði í ræðu sinni að nú yrði Alþingi gert að fjölskylduvænum vinnustað og það væri ómögulegt að vita aldrei hvenær fundi lyki. Þá veltir maður því fyrir sér af hverju þingmaðurinn styður það þá að það verði algerlega í valdi forseta að ákveða hversu lengi fundir standa, hvort settir verði á kvöldfundir eða næturfundir. Slíka ákvörðun getur forseti tekið einn og fyrirvaralaust. Ég hlýt líka að velta því fyrir mér hvaða afstöðu þingmaðurinn hefur til umsagnar Félags starfsmanna Alþingis um það atriði sérstaklega, þeir benda á að vinnustaðurinn verði ekki fjölskylduvænn þegar þessi ákvæði eru galopin eins og þau eru í frumvarpinu. Mér finnst að þingmaðurinn verði að finna þessum orðum sínum um fjölskylduvænan vinnustað með frumvarpinu einhver haldbetri og sterkari rök en hún gerði í máli sínu. Ég vænti þess að hún geri það í svari við þessu andsvari.