135. löggjafarþing — 44. fundur,  13. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[21:21]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég talaði áðan í innan við 20 mínútur og það er reiknað samkvæmt nýja kerfinu þannig að ég var að æfa mig í því. Ég tel að ég hefði getað komið meginsjónarmiðum mínum á framfæri á þessum 20 mínútum, já. 1. umr. Í 2. umr. eru 20 mínútur, síðan er næsta tíu mínútur og svo fimm mínútna bútar, eins og hv. þingmaður kallar það, þaðan í frá en þá er búið að tala í 30 mínútur þegar farið er í fimm mínúturnar. Það geta þingmenn á öðrum Norðurlöndum þannig að ég tel að við getum það alveg eins hérna. Ég tel að faglegur stuðningur sé ekki nægilegur á þinginu hjá okkur. Ég hef ekki heyrt neinn halda því fram að með þessum breytingum komum við einhverju jafnræði á við aðstöðuna sem aðrir þingmenn á Norðurlöndunum búa við. Frumvarpið nær því ekki. Við tökum bara á einum þætti hér og það er ræðutíminn. Það er svo margt, margt annað sem þarf að gera hér. Efla þarf nefndarstarfið og faglegan stuðning. Ég get nefnt sem dæmi að á nefndarfundi í nefnd Norðurlandaráðs um daginn voru nokkrir þingmenn frá Norðurlöndunum sem voru með aðstoðarmenn með sér. Það er miklu algengara að aðstoðarmannafyrirkomulag sé notað á öðrum Norðurlöndum. Við höfum það ekki hér. Við tökum það vonandi upp mjög bráðlega þannig að það er langt í frá að við séum við búin að jafna aðstöðumuninn með þessu frumvarpi.

Ég vil einnig taka fram vegna umræðunnar um ræðutímann að í stærri málum verður umræðan lengri og hver þingflokkur getur beðið um það tvisvar á vetri. Svo hef ég líka meiri trú á þingforseta en ég finn að vinstri grænir hafa. Ég hef meiri trú á því að þingforseti leyfi lengri umræður um stærri mál.