135. löggjafarþing — 44. fundur,  13. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[21:25]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef enga sérstaka trú á núverandi ríkisstjórn, alls ekki, og tel að mjög mikilvægt sé að veita henni fullt og grimmt aðhald. Hún er mjög fjölmenn og þess vegna er aðhaldið mjög mikilvægt.

Varðandi spurninguna um hvort ég telji að undirbúningur þingmála verði betri í framtíðinni er alveg ljóst að við tökum ekki á því með þessu frumvarpi. Þó er hægt að færa rök fyrir að með því að umræðan styttist í þingsal, sem við vonumst til, gefist meiri tími til nefndastarfs sem er mjög æskilegt. Ég tel að undirbúningur þingmála hafi batnað mjög mikið nú á síðari árum en undirbúningurinn er samt ekki nægilega góður. Í samfélagi okkar er allur undirbúningur mjög tengdur ráðuneytunum, hann fer að meira eða minna leyti fram þar. Annars staðar á Norðurlöndunum fer undirbúningurinn meira fram í samfélaginu og inni í þinginu.